„Miðað við hvernig
ríkið hefur staðið að málum, meðal annars í Vatnajökulsþjóðgarði og við sum
friðlýst svæði sem mitt sveitarfélag þekkir mjög vel, þá treysti ég ekki ríkinu
fyrir hálendinu okkar. Það er betur staðið að ýmsum málum á okkar afrétti
heldur víða þar sem ríkið hefur komið að málum.“
Þetta sagði Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi í Bræðratungu og sveitarstjórnarmaður í Bláskógabyggð, í umræðu um fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð í Silfrinu á RÚV í morgun. Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og náttúruverndarmaður, sagðist skilja áhyggjur sveitarstjórnarfólks og að til þeirra yrði að taka tillit en benti á að samrýma yrði uppbyggingu og skipulagsmál til verndar hálendinu sem væri hjarta landsins. Allir yrðu að gefa eftir í því sambandi.
„Ég átta mig algörlega á [að stofnun hálendisþjóðgarðs] sé umdeild og þetta rok sem er í gangi núna er viðbúið,“ sagði Tómas. Ýmsar efasemdir hafa komið fram um garðinn síðustu vikur. Náttúruverndarfólk gerir athugasemdir við að leyfðar verði nýjar virkjanir innan garðsins, en Landsvirkjun vill að tryggð verði áframhaldandi rekstur og framþróun orkukerfisins á svæðinu. Þá óttast sveitarstjórnarmenn að skipulagsvaldið verði frá þeim tekið.
Hjarta landsins
Tómas sagðist til dæmis persónulega ekki vera sáttur við öll útfærsluatriði frumvarpsins, m.a. að þar yrði heimilaðar nýjar virkjanir. „En aðalatriðið er þetta, ég tel mjög brýnt að við verndum hálendið. Ég vil ekki bara tala um náttúruvernd ég vil eiginlega tala um auðlindavernd vegna þess að þetta er hjarta landsins sem við þurfum að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Við verðum að hugsa þetta lengra en eina mannsævi eða tvær.“
Benti hann á að mikil ásókn væri í virkjun jökuláa sem og ferðamanna og því yrði uppbygging að vera samræmd og í sátt við náttúruna. Stofnun hálendisþjóðgarðs væri álíka mikilvæg fyrir íslenska þjóð e og verndun fiskimiðanna á sínum tíma.
Gagnrýnir samráðsleysi
Guðrún sagði að nokkrar skýringar væru á andstöðu sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi við stofnun hálendisþjóðgarðs meðal annars sú að samtalið um hvort slíkt væri skynsamlegt hafi „aldrei farið fram“.
Benti hún á að svæðið innan marka síns sveitarfélags, sem færi inn í garðinn, væri þjóðlenda í dag.
„Ég veit ekki hvort að íslenska þjóðin áttar sig á muninum á þjóðgarði og þjóðlendu. Þjóðgarður er ríkisstofnun, stórt ríkisbákn, þar sem allur kostnaður við báknið er greiddur af skattgreiðendum. Þjóðlenda er vissulega sameign okkar allra og við höfum öll aðgengi að henni.“
Sjálfboðavinna og gjafir
Stjórnsýslan í tengslum við þjóðlendur sé einföld í samvinnu sveitarstjórna og forsætisráðuneytis. „Öll vinnan, uppbyggingin, hún fer fram af okkur. Það er enginn sem fær greidd laun fyrir að taka ákvarðanir. Við förum inn á þjóðlenduna okkar, afréttinn okkar, gerum okkar vinnu, gefum efni í uppbyggingu á svæðunum. Heimamenn hafa margir hverjir gefið stórar fjárupphæðir í ákveðin verkefni og við höfum átt mjög gott samstarf við ýmis útivistarfélög.“
Á þjóðlendunni eru fjórir fjallaskálar og stór landgræðslusvæði. Sveitarfélagið hefur byggt göngubrýr, sett upp merkingar m.a. í samstarfi við landssamband hestamanna. „Það var gríðarlega stórt verkefni sem kostaði innan við tvær milljónir. Ég velti því fyrir mér hvað það myndi kosta í höndum ríkisins.“
Helmingur svæðis þegar friðlýstur
Tómas sagðist telja misskilning hér á ferð. „Í fyrsta lagi eiga sveitarfélögin að koma áfram að skipulagsmálum inni á sínum afrétti þannig að það er alls ekki verið að taka frá þeim allt skipulagsvald en það yrði samræmt.“ Til að ná að vernda hálendið yrðu allir að gefa eitthvað eftir. Það væri til dæmis raunin varðandi mögulegar nýjar virkjanir inni á svæðinu.
Innan hálendisþjóðgarðs yrði yfir 30% Íslands. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, hefur í kynningu sinni á áformunum bent á að um helmingur þess svæðis sé nú þegar friðlýstur með einum eða öðrum hætti.
Í frumvarpinu er m.a. lögð áhersla á að stjórnun hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum.
Óskiljanlegt að taka verkefnið úr höndum sveitarfélaga
Guðrún sagðist ekki sammála því að sveitarstjórnir hafi áfram vald. Benti hún á að samkvæmt drögum frumvarpsins ættu sjö sveitarfélög á suðvestursvæði að koma sér saman um fimm fulltrúa í umdæmisráði. „Það gefur alveg auga leið að við höfum ekki mikið að segja ef við höfum fulltrúa þar inni.“
Sagði hún einkennilegt að ríkið væri að hlutast til um það að taka verkefni frá sveitarfélögum sem þau hefðu sannarlega sinnt og það ekki með skattpeningum landsmanna. „Það er óskiljanlegt.“
Tók hún dæmi málefni Skaftafellsþjóðgarðs, sem fyrir nokkrum árum varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Fyrir um tveimur árum kom út „mjög svört skýrsla“ heilbrigðisyfirvalda um fráveitumálin í Skaftafelli þar sem talað var um „skolppolla“ meðal annars. „Við hefðum aldrei sýnt okkar náttúru inni á hálendinu slíka vanvirðingu. Þetta hefði aldrei gerst á okkar vakt.“
Enn fleiri dæmi tíndi hún til. Stofnun gestastofu við Gullfoss sem átti að vera virðingarvottur við Sigríði í Brattholti. Það hafi endað með því að ríkið gerði gestastofuna að klósettum „og svo gafst ríkið upp. Það gat ekki einu sinni rekið salerni við Gullfoss.“ Það hafi ekki heppnast fyrr en heimamaður tók reksturinn yfir.
Umbætur í Vatnajökulsþjóðgarði
Tómas tók undir gagnrýni Guðrúnar á rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs en sagði hann horfa til betri vegar nú eftir að breytingar hefðu verið gerðar. „Heilt yfir er reynsla Íslendinga af þjóðgörðum og friðlýsingum er mjög góð.“ Sem dæmi blómstrar Þjóðgarður á Snæfellsnesi og friðlýsing Hornstranda hafi tekist vel til.
Hann sagði máli ekki aðeins byggja á hagfræðilegum rökum og að stefnt sé að því að „setja túrista inn á hálendið“ heldur að varðveita landið fyrir komandi kynslóðir. „Ef við höldum áfram með þessa virkjanavél sem er í gangi núna þá verður ekkert eftir. Þetta væri eins og að henda [forn]handritunum í ruslið.“
Álverið í líknandi meðferð
Sagði hann ýmsa gerjun í gangi í raforkumálum, t.d. þær fréttir að framleiðsla álversins í Straumsvík hefði verið minnkuð og hjá Landsvirkjun yrði þá til orka sem mætti nýta í annað en málmbræðslu.
Líkti hann framtíð álversins við sjúkling sem fengi nú líknandi meðferð. „Ef það verða fleiri hjartsláttartrulflanir þar þá er ég ekki viss um að það verði farið í neina endurlífgun.“
Vill hann vernda?
Guðrún sagði að áform um stofnun hálendisþjóðgarðs hefðu „snúist um pjúra markaðssetningu hjá umhverfisráðherra. Hann talar um að þetta sé þjóðhagslega hagkvæmt, að þjóðgarðar séu vörumerki.“ Vill hann vernda eða vill hann fleiri ferðamenn, spurði hún. „Hvert eru menn að fara?“
Í greinargerð með frumvarpi að hálendisþjóðgarði kemur fram að með stofnun hans skapist tækifæri til að ná utan um stjórnun og marka stefnu fyrir svæðið með markvissum og heildstæðum hætti. Þá skapist tækifæri til að ráðstafa fjármunum í auknum mæli til innviðauppbyggingar á svæðinu sem m.a. er nauðsynleg til að fyrirbyggja að verðmæt svæði verði fyrir skemmdum af völdum ágangs vegna aukinnar aðsóknar ferðamanna. „Ef vel er á málum haldið getur stofnun þjóðgarðs haft jákvæð áhrif á byggðaþróun og verið uppspretta tekna fyrir atvinnustarfsemi í nærumhverfinu og á landsvísu.“
Fjármagn verður að fylgja
Verðmiði á náttúrunni er ekki mikilvægastur þegar kemur að stofnun þjóðgarðs, að mati Tómasar. Víðerni Íslands séu gullmoli sem verði að varðveita. Fé yrði að fylgja til uppbyggingar, annars væri verkefnið „andvana fætt“.
„Báknið“ Vatnajökulsþjóðgarður hefur ekki virkað, ítrekaði Guðrún. Nú ætti að taka sama módel og setja yfir þjóðlendur Bláskógabyggðar sem hefur hingað til verið sinnt vel af sveitarfélaginu. „Við erum mjög montin af okkar framgöngu. Þetta er bara ákveðin vanvirðing við okkar stjórn og eiginlega bara árás á sjálfstæði landsbyggðarfólks. Af hverju má ekki treysta okkur fyrir þessu? [...] Það þarf ekki ríkisbákn yfir allt hálendið. Það er ekki þörf á því, við erum að gera þetta og erum stolt af því.“