Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, hefur óskað eftir því að almenningur styðji við The Courage Foundation, sem er alþjóðlegur styrktarsjóður sem veitir uppljóstrurunum fjárhagslegan stuðning, en Wikileaks er einn og stofnendum sjóðsins. Á meðal þeirra sem hafa fengið stuðning úr sjóðnum eru Chelsea Manning og Edward Snowden. Nú hefur Jóhannes Stefánsson, upphafsmaður Samherjamálsins, bæst á þann lista.
Kristinn segir í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld að uppljóstrarar verði iðulega fyrir linnulausum árásum valdsins og að þá beri að vernda. Á Íslandi sé enn ekki búið að innleiða formlega löggjöf um vernd þeirra þó að ríkisstjórnin hafi lagt farm frumvarp þess efnis síðla árs í fyrra. „Jóhannes Stefánsson sem er upphafsmaður Samherjamálsins (Fishrot) hefur nú þegar orðið fyrir heiftarlegum persónuárásum og níði. Hann nær að hrista það af sér. Aðrar varnir þurfa stuðning. Þó að Jóhannes hafi formlega stöðu uppljóstrara í Namibíu og er laus undan hættu á lögsókn þar í landi, verður hann að undirbúa varnir í öðrum lögsagnarumdæmum, meðal annars á Íslandi.“
Uppljóstrarar verða iðulega fyrir linnulausum árásum valdsins. Þá ber að vernda. Á Íslandi er enn ekki búið að innleiða...
Posted by Kristinn Hrafnsson on Monday, January 27, 2020
Kristinn greinir svo frá því að Courage Foundation hafi ákveðið að styðja við bakið á Jóhannesi en kostnaður við lagalegar varnir sé þegar byrjaður að hlaðast upp. Kristinn segir Evu Joly leiða varnarvinnuna fyrir hönd Jóhannesar en lögmenn hjá Rétti lögmannsstofu í Reykjavík komi einnig að því verki. „Courage sjóðurinn þarf stuðning almennings til að styðja uppljóstrara eins og Jóhannes og áður Edward Snowden og fleiri. Ein leið til að þakka Jóhannesi verkið er að setja í baukinn hjá Courage.“
Alþjóðlegt spillingarmál
Samherjamálið, eða Fishrot á ensku, hófst með umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks í nóvember um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar, sem er fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Yfirvöld í Namibíu, Angóla, Íslandi og í Noregi eru að rannsaka mál tengd Samherja.