Efling segir að umfjöllun Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, um afleiðingar þess ef kröfur stéttarfélagsins í deilu þess við Reykjavíkurborg, hafa verið pantaða. Þeim fullyrðingum sem birtast í pistli eftir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins, í sama blaði um sömu mál er auk þess vísað á bug. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í yfirlýsingu að Samtök atvinnulífsins og „gervi-félagshyggja Reykjavíkurborgar“ séu gengin í eina sæng. Það sé „stórfenglegt að verða vitni að samtryggingu yfirstéttarinnar gegn hagsmunum láglaunafólks.“
Í umfjöllun Markaðarins í dag er sagt að launamunur á milli ófaglærðs og háskólamenntaðs starfsfólks á leikskólum Reykjavíkurborgar mun minnka verulega og verða í sumum tilfellum nær enginn ef fram settar leiðréttingarkröfur Eflingar fyrir hönd sinna félagsmanna verði samþykktar. Þetta hafi komið fram í útreikningum sem Samtök atvinnulífsins hefðu unnið að beiðni Markaðarins í ljós.
Annars staðar í Markaðnum birtist skoðanagrein eftir Halldór Benjamín þar sem kröfur Eflingar eru kallaðar „hnitmiðuð atlaga að lífskjörum almennings.“
Hafna afskiptum atvinnurekenda
Í tilkynningu sem Efling sendi frá sér síðdegis í dag hafnar félagið alfarið afskiptum Samtaka atvinnulífsins af kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg vegna Eflingarfélaga sem starfa á lægstu launum hjá borginni. „Félagsmenn Eflingar hjá borginni fara með sjálfstætt umboð til viðræðna við sinn atvinnurekanda sem varið er af lögum og stjórnarskrá. Efling mótmælir því að ótengdir aðilar hlutist til um samningsrétt þeirra.“
Kallar fullyrðingar hræðsluáróður
Sólveig Anna segir það vera stórfenglegt að verða vitni að samtryggingu yfirstéttarinnar gegn hagsmunum láglaunafólks, þar sem markaðsrétttrúnaður Samtaka atvinnulífsins og gervi-félagshyggja Reykjavíkurborgar gangi í eina sæng. „Ég hef fréttir fyrir fulltrúa þessa bandalags: Það er mikill misskilningur að kjarasamningar Eflingar á almennum vinnumarkaði í apríl 2019 hafi afnumið samningsrétt láglaunafólks hjá sveitarfélögum. Við ræddum um þá samninganna vorið 2019 sem vopnahléslínu. Baráttu okkar fyrir bættum kjörum félagsmanna lýkur ekki fyrr en þeir geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum.“
Efling hafnar einnig því sem félagið kallar villandi málflutningi í „pantaðri umfjöllun og pistli framkvæmdastjóra SA í Fréttablaðinu í dag“.
Efling segir að tillögur sínar séu byggðar á þekktri fyrirmynd sem Reykjavíkurborg innleiddi að eigin frumkvæði árið 2005. „Þær breytingar leiddu hvorki til hörmunga, óstöðugleika né kjaraskerðinga á íslenskum vinnumarkaði. Engin ástæða er til að ætla að sams konar breyting árið 2020 myndi hafa slíkar afleiðingar. Fullyrðingar um slíkt eru hræðsluáróður.“
Efling segir að Samtök atvinnulífsins hafi áður leikið þann leik að uppreikna kröfur stéttarfélaga upp í hæstu hæðir með talnabrellum. Það hafi meðal annars verið gert í febrúar 2019 á meðan að kjaraviðræður, sem leiddu til lífskjarasamningsins, stóðu yfir.