Ragnhildur Sverrisdóttir, sem hefur verið upplýsingafulltrúi Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thor Björgólfssonar, mun láta af störfum hjá félaginu í nánustu framtíð.
Þetta staðfestir Ragnhildur í samtali við Kjarnann. Hún segir starfslokin vera gerð í sátt og samlyndi en um áratugur er síðan að hún hóf störf fyrir Novator.
Ragnhildur starfaði áður lengi sem blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu.
Hún hefur undanfarin ár komið fram bæði sem talskona Björgólfs Thors í málum sem tengjast uppgjöri hans við hrunið og sem upplýsingafulltrúi Novator vegna fjárfestinga félagsins víða um heim.
Kom til baka eftir bankahrunið
Fjármálahrunið setti veldi Björgólfs Thors, sem hafði efnast á að selja bjórverksmiðju í Rússlandi, en svo fjárfest mikið í lyfja- og fjarskiptaiðnaðinum auk þess að kaupa ráðandi hlut í Landsbanka Íslands ásamt föður sínum og viðskiptafélaga þeirra, í hættu.
Nær öll samskipti íslenskra fjölmiðla við Björgólf og Novator síðastliðinn áratug hafa farið fram í gegnum Ragnhildi.
Umsvifamiklir víða um heim
Björgólfur Thor, og samstarfsmenn hans í Novator, þeir Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson, hafa farið mikinn í fjárfestingum síðastliðinn rúman áratug, að mestu annars staðar en á Íslandi. Novator er þó enn með umsvif hérlendis, og er meðal annars stór hluthafi í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Þá tók Björgólfur Thor þátt í skuldabréfaútboði WOW air í september 2018, nokkrum mánuðum áður en að flugfélagið fór í þrot, en í gegnum eigin félag.
Viðskiptablaðið greindi nýverið frá því að Novator hefði fengið 32 milljarða króna í arð frá fjarskiptafélaginu WOM í Chile og með sölu á um 4 prósent hlut í pólska símafyrirtækinu Play. Í frétt blaðsins kom einnig fram að Novator væri að koma á fót fjarskiptafyrirtæki í Kólumbíu um þessar mundir og að félagið hefði sýnt áhuga á að kaupa kólumbíska hluta fjarskiptafélagsins Telefónica að fullu eða að hluta. Novator hefur líka fjárfest í rafmyntum og sprotafyrirtækjunum á borð við Zwif, BeamUp og Deliveroo og fjölmörgum öðrum fyrirtækjum. Hægt er að sjá yfirlit yfir fjárfestingar félagsins hér.
Í mars í fyrra var sagt frá því að Björgólfur Thor sæti í 1.116 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins og að auður hans væri metinn á 2,1 milljarð Bandaríkjadali.
Tveimur mánuðum síðar, í maí 2019, var Björgólfur Thor í 91. sæti yfir ríkustu menn Bretlands samkvæmt lista The Sunday Times.