Nú þegar stefnir í að Efling stéttarfélag fari með hluta félagsmanna sinna, sem starfa hjá Reykjavíkurborg, í verkföll vill VR að það komi fram að félagið styður og stendur við bak Eflingar stéttarfélags í þessari baráttu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn VR í dag.
„Lykilatriðið í kröfum Eflingar er leiðrétting á kjörum lægst launuðu starfsmanna borgarinnar sem nú eru á launum sem duga ekki til framfærslu. Að geta lifað með mannlegri reisn af launum sínum hlýtur að vera eitt grundvallar mannréttinda- og baráttumál verkalýðshreyfingarinnar,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur enn fremur fram hjá VR að stéttarfélagið taki því heilshugar undir með öllu því baráttufólki innan Eflingar sem sett hafi þetta réttlætismál á oddinn í þeirra kjaraviðræðum og óski þeim farsællar niðurstöðu.
Á við fjóra bragga
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, gerði grein fyrir því hvað launahækkanir á lægstu launum starfsmanna borgarinnar myndu kosta Reykjavíkurborg í samanburði við kostnað sveitarfélagsins við nýlega endurnýjun Braggans á blaðamannafundi í fyrradag. Hann sagði að fjármagnið væri fyrir hendi hjá Reykjavíkurborg.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt í fjölmiðlum að hann hafi áhyggjur af fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Það sé alvarlegt mál ef þau verði að veruleika en nú standi yfir undirbúningur ef til þess kemur. Hann vonist þó til að samningar náist áður en til verkfalla kemur.