Heildarfjöldi greiddra gistinátta dróst saman um 3,1 prósent á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þær voru rúmlega 10 milljónir árið 2019 en tæplega 10,4 milljónir árið 2018. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum drógust saman um 1,3 prósent, á gististöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður varð 10,8 prósent samdráttur og 1,9 prósent samdráttur á öðrum tegundum gististaða á borð við farfuglaheimili og tjaldsvæði.
Kjarninn fjallaði um fækkun ferðamanna fyrr í mánuðinum en þar kom fram að alls hefðu brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll, sem notaðar eru til viðmiðunar um hversu margir ferðamenn heimsóttu landið, verið 1.986.153 í fyrra. Það er um 329 þúsund færri en árið 2018, sem var metár, en þá voru brottfarir 2.315.925. Til samanburðar þá búa um 364 þúsund manns á Íslandi um þessar mundir. Ferðamönnum fækkaði því um tæplega eina íslenska þjóð í fyrra.
Ferðamennirnir sem flugu frá Íslandi voru því 14,2 prósent færri í fyrra en árið á undan og tæplega tíu prósent færri en þeir voru árið 2017. Ferðamenn í fyrra voru hins vegar fleiri en árið 2016.
Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 1 prósent
Heildarfjöldi greiddra gistinátta í desember síðastliðnum dróst saman um 4,6 prósent samanborið við desember 2018, samkvæmt Hagstofunni. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 1 prósent á meðan 11 prósent samdráttur var á gistiheimilum. Á öðrum tegundum gististaða drógust gistinætur saman um 6 prósent en um 19 prósent á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 504.000 í desember síðastliðnum en þær voru um 528.200 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 352.700, þar af 304.700 á hótelum. Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum og þess háttar voru um 87.300 og um 64.000 á stöðum sem miðla gistingu í gegnum vefsíður á borð við Airbnb, segir á vef Hagstofunnar.
Gistinætur á hótelum í desember síðastliðnum voru 304.700, sem er 1 prósent aukning frá sama mánuði árið áður. Gistinóttum á hótelum á Norðurlandi fækkaði um 23 prósent en þeim ýmist fjölgaði eða héldust óbreyttar á öðrum landsvæðum. Um 67 prósent allra hótelgistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða 204.300.
Heildarfjöldi gistinátta á hótelum árið 2019 var um 4.519.000, og fjölgaði þeim um 1 prósent frá árinu 2018.
Nýting best á höfuðborgarsvæðinu
Herbergjanýting á hótelum í desember 2019 var 50,6 prósent og féll um 2,7 prósentustig frá fyrra ári. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,9 prósent mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í desember var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 67,7 prósent.
Um 90 prósent gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn, eða 274.700. Ferðamenn frá Bretlandi voru með flestar gistinætur, eða 69.000 nætur, þar á eftir komu Bandaríkjamenn með 60.300 nætur og Kínverjar með 42.000 nætur en gistinætur Íslendinga voru 30.000.
Samkvæmt áætlun sem byggir á svörum úr landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands voru gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða um 2.000 og gistinætur hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu, um 17.000.