„Um leið og við þökkum stuðninginn á þessu 10. afmælisári Menningarhússins Bíó Paradís þá er komin upp sú staða að bíóhúsinu verður lokað þann 1. maí næstkomandi.“ Þannig hljómar byrjun tilkynningar Bíó Paradísar sem birtist á vefsíðu þeirra í dag.
Mikla athygli vakti í fjölmiðlum í gær þegar fregnir bárust af því að kvikmyndahúsið Bíó Paradís myndi hætta starfsemi næsta vor.
Í tilkynningunni segir að starfsemin sé í fullum gangi og að gríðarlega metnaðarfull dagskrá sé enn í boði. Þó séu árskort í bíóið ekki lengur til sölu og greina forsvarsmenn þess fá því að þeir sem eiga kort geti haft samband við miðasölu Bíó Paradís og fengið hluta endurgreiddan eftir 1. maí næstkomandi. „Við hvetjum alla korthafa til að nýta kortið vel, enda frábær dagskrá í gangi og framundan.“
Þó er sérstaklega tekið fram að forsvarsmenn bíósins séu að leita leiða til þess að halda starfseminni gangandi – því hvetja þau fólk til að fylgjast vel með.
„Það hefur verið mikill uppgangur hjá Bíó Paradís frá opnun 2010. Það hafði aldrei verið listrænt bíóhús á Íslandi áður en fagfélög í kvikmyndagerð stofnuðu þetta fyrsta menningarhús í miðbæ Reykjavíkur eftir að Regnboganum var lokað.
Bíó Paradís hefur boðið upp á kvikmyndafræðslu fyrir öll skólastig, verið heimili íslenskra kvikmyndagerðarmanna ásamt því að vera sýningarvettvangur fyrir Kvikmyndaskóla Íslands, íslenskar kvikmyndir í sinni breiðustu mynd og boðið upp á kvikmyndamenningu frá öllum heimshornum, lagt ríka áherslu á sýningu á Evrópskum verðlaunakvikmyndum sem og að halda metnaðarfullar Alþjóðlegar kvikmyndahátíðar á borð við Stockfish og Alþjóðlega Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík sem er sú fyrsta og eina sinnar tegundar. Svo mætti telja alla kvikmyndadagana t.a.m. þýska, pólska, rússneska og japanska kvikmyndadaga sem og Frönsku Kvikmyndahátíðina sem nú fagnar 20 ára afmæli,“ segir í tilkynningunni.
Bíó Paradís þakkar stuðninginn sem við höfum fundið fyrir síðastliðinn sólarhring og viljum koma eftirfarandi...
Posted by Bíó Paradís on Friday, January 31, 2020