Bretland fer úr Evrópusambandinu formlega í dag, en forsendur útgöngunnar eiga þó eftir að teiknast upp, t.d. þegar kemur að viðskiptakjörum og fleiri þáttum, sem snúa að viðskiptasambandi við Evrópusambandsþjóðirnar 27.
Með útgöngu Bretlands hverfa samtals 66 milljónir manna af heildar íbúafjölda Evrópusambandslanda, sem er nú komin niður í um 460 milljónir.
Bretland hefur verið hluti af Evrópusambandinu frá því árið 1973, og því er útgangan söguleg vegna þess hve rótgróið samband Bretlands hefur verið við Evrópuþjóðirnar sem mynda Evrópusambandið.
UK's Brussels embassy takes down EU flag as sun sets on Brexit day https://t.co/pmNXyZCbui pic.twitter.com/ToKsfWuAy9
— Reuters (@Reuters) January 31, 2020
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur barist fyrir útgöngu Bretlands frá því árið 2016, þegar kosið var um málið í þjóðatkvæðagreiðslu.
Niðurstaðan sýndi algjöran klofning meðal þjóðarinnar, 52 prósent vildu Brexit, en 48 prósent vildu vera áfram í sambandinu.
Sérstaklega var mikill munur á viðhorfum fólks í borgum annars vegar - sem vildu ekki útgöngu - og landsbyggð hins vegar - sem var meira fylgjandi útgöngu - og síðan var afgerandi meiri stuðningur við Brexit meðal fólks yfir 55 ára aldri heldur en hjá yngra fólki - sem í miklum meirihluta vildi vera áfram í sambandinu.
This is the moment the Union Flag was removed from the EU Council building in Brussels ahead of #Brexit.
— Sky News (@SkyNews) January 31, 2020
Follow #BrexitDay live here: https://t.co/n2ud5XhnQ1 pic.twitter.com/1NkEZ3jeDX
Eftir þrjár misheppnaðar tilraunir til að fá samning um útgöngu Bretlands við Evrópusambandið samþykktan í þinginu, þurfti Theresa May, þáverandi forsætisráðherra, að segja af sér.
Boris Johnson tók þá við taumunum, og lagði áherslu á að hraða ferlinu og boða til kosninga. Það var gert, og eftir kosningsigur hans og Íhaldsflokksins, varð eftirleikurinn auðveldari í þinginu. Útganga Bretlands var samþykkt, og talað um 31. janúar sem stóra daginn. Það gekk eftir og útgangan nú að verða staðreynd.
Vicki Young, fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC á sviði stjórnmála, segir á vef BBC að enginn viti enn með vissu, hvað Brexit þýðir. Margir lausir endar þegar kemur að viðskiptasamningum og alþjóðasamskiptum yfirleitt, séu fyrir hendi.