Stóra markaðsmisnotkunarmál Landsbankans, sem Hæstiréttur dæmdi í febrúar 2016, mun fá efnismeðferð fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ákvörðun um þetta var tekin fyrr í janúarmánuði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Í málinu voru fjórir menn dæmdir til fangelsisvistar fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrum forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, Júlíus S. Heiðarsson, sem var sérfræðingur í sömu deild, og Sindri Sveinsson, sem starfaði við eigin fjárfestingar hjá Landsbankanum, voru allir dæmdir sekir um markaðsmisnotkun í Hæstarétti. Sigurjón hlaut eins árs og sex mánaða fangelsisdóm. Ívar var dæmdur í tveggja ára fangelsi en Júlíus og Sindri hlutu eins árs fangelsisdóma.
Dæmt 2015 og 2016
Dómar í tveimur málum gegn Sigurjóni, stóra markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og Ímon-málinu, féllu upphaflega í október 2015 og í febrúar 2016. Hann hlaut samanlagt fimm ára fangelsisdóm í þeim málum.
Á árinu 2017 var greint frá því að Sigurjón hefði krafist þess að tvö mál á hendur honum yrðu tekin aftur til meðferðar fyrir dómi. Beiðni um þá endurupptöku hafi verið send inn í september 2016. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, sagði í samtali við Fréttablaðið á þeim tíma að byggt væri „fyrst og fremst á þeim fréttum sem hafa komið um hlutabréfaeign dómara í blöðunum. Svo hefur verið að koma í ljós að þeir hafa verið að staðfesta að þeir hafi tapað fjármunum í bankahruninu, sumir dómarar.“ Þær fréttir sem Sigurður vísar í voru meðal annars sagðar í desember 2016, þremur mánuðum eftir að endurupptöðubeiðni Sigurjóns var send inn.
Endurupptökunefnd féllst í maí 2019 á endurupptöku tveggja hæstaréttarmála þar sem Sigurjón var dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir brot í starfi sínu. Annað þeirra mála var markaðsmisnotkunarmálið, en hitt Ímon-málið svokallaða.
Ein þeirra ástæðna sem gefin var fyrir þeirri niðurstöðu var að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson sem dæmdu í málunum, hefði átt hluti í Landsbankanum fyrir hrun og orðið fyrir verulegu tjóni við fall bankans. Þeir eru nú báðir komnir á eftirlaun.
Umfjöllunin leiddi til þess að dómarar við Hæstarétt voru látnir birta hagsmunaskráningu sína opinberlega, og hefur það þegar verið gert á heimasíðu réttarins síðan þá.
Málin eru nú komin aftur á dagskrá Hæstaréttar og verður málflutningur í þeim er 4. og 11. mars.