Yfir 120 namibískir sjómenn sem starfa á skipi Samherja í Namibíu óttast að þeir hafi misst vinnuna eftir að skipið yfirgaf landið óvænt síðastliðinn miðvikudag. Frá þessu greinir The Namibian í dag.
Samherji sendi frá sér tilkynningu fyrr í janúar þar sem kom fram að fyrirtækið segðist vera að draga úr starfsemi sinni í Namibíu með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það væri hins vegar ljóst að það myndi taka einhvern tíma. „Allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu verða teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur,“ sagði í fréttatilkynningunni.
Skipið sem um ræðir, Saga, er í eigu Saga Seafood og siglir undir merkjum Esju Seafood Limited, dótturfélags Samherja á Kýpur. Í frétt RÚV um málið kemur fram að skipið hafi um árabil veitt hrossamakríl í lögsögu Namibíu.
Samkvæmt The Namibian voru sjómennirnir beðnir í gegnum sms að sækja eigur sínar á skipið fyrir síðastliðinn miðvikudag. Leonard Shinedima, einn skipverjinn á Sögu, sagði í samtali við miðilinn að þeim hefði verið greint frá því að fyrirtækið hefði ekki fengið kvóta og væri því að senda skipið í viðgerð í Las Palmas á Kanaríeyjum.
„Núna heyrum við að skipið eigi ekki afturkvæmt. Þeir notuðu það einungis sem afsökun að það væri að fara til í Las Palmas til þess að koma því frá Namibíu,“ sagði Shinedima við The Namibian. Starfsmenn fengu engar frekari upplýsingar um hversu lengi skipið muni vera í burtu né hvort þeir fái borgað.