Ólík sýn á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu kristallast vel á forsíðum dagblaða í Bretlandi í dag sem og annars staðar í Evrópu. Í gær yfirgaf Bretland formlega ESB eftir að hafa verið hluti af því í 47 ár. Í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina í gærkvöldi sagði ritstjóri The Sun að forsíður bresku blaðanna sýndu stefnu ritstjóra þeirra í Brexit. Þeir væru að tala til sinna lesenda.
Á meðan sum blöð í Bretlandi og víðar um Evrópu tóku saman upplýsingar um hvaða þýðingu útgangan hefði á hina og þessa hópa voru önnur djarfari í framsetningu sinni. „Velkomin á fætur, hér er dýrlegt nýtt Bretland,“ stóð til dæmis á forsíðu Daily Express í morgun. Á forsíðu Guardian kvað við allt annan tón. Þar mátti sjá mynd af sorgbitnum hundi, enskum bolabít, og við hana stóð: „Sakna þín nú þegar“.
Aðrir tóku „fréttalegri“ nálgun og á forsíðu Daily Telegraph í morgun var frétt um að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, væri að undirbúa að koma á fullri tollskoðun á allan evrópskan varning sem kæmi til landsins. Væri það gert til að auka þrýsting á ESB í komandi viðræðum um verslun og viðskipti.
Forsíður dagblaða annars staðar í Evrópu í gær og í dag eru einnig margar hverjar undirlagðar af umfjöllun um Brexit eins og sést á myndunum hér fyrir neðan.
Í frönsku blöðunum var Bretland hvatt með áberandi hætti. Á forsíðu Liberation stóð: Stundin er runnin upp. á forsíðu Le Figaro var fyrirsögnin: Evrópa kvödd.
Le Monde sagði á sinni forsíðu að nú færi Evrópa inn í óvissutíma og á forsíðu La Croix stóð einfaldlega: Sjáumst!
Forsíða Le Dauphine var á svipuðum nótum og þar stóð: Stundin er runnin upp. Þetta er frágengið.
Fyrirsögnin á forsíðu Le Parisien var einfaldlega: Bless bless!
Bresku blöðin eru þekkt fyrir orðaleiki og sprell í fyrirsögnum og götublaðið The Sun var á þeim nótum í sinni fyrirsögn í morgun: Make Leave...Not War.
Forsíður bæði Daily Mirror og The Guardian eru dramatískar í morgun. Daily Mirror leggur áherslu á að nú sé komið að því að byggja upp það Bretland sem stjórnamálamenn hefðu lofað. The Guardian skrifar einfaldlega: Dagurinn sem við sögðum bless.
Á forsíðu þýska blaðsins Der Tagesspiegel stóð: Bless Bretland: Við munum sakna þín.
Svipaður tónn var á forsíðu belgíska blaðsins De Tijd þar sem fyrirsögnin var: Kæru bresku vinir, við hörmum Brexit en við vonum að þetta séu ekki endalokin.
Á forsíðu pólska blaðsins segir að Pólverjar ættu að læra af Brexit og á forsíðu portúgalska blaðsins Diario de Noticias stendur: 1317 dögum síðar var kominn tími til að kveðja. En hvað mun breytast yfir höfuð?
Annað portúgalskt blað, Publico, var með einfalda framsetningu og á forsíðunni stóð: Sjáumst síðar.
Á forsíðu skoska blaðsins The National er framsetningin mjög afgerandi og þar stendur: Kæra Evrópa, við kusum þetta ekki. Munið að skilja eftir kveikt ljós fyrir Skotland.
Tomorrow's front page: Dear Europe, leave a light on for Scotland 🕯️
— The National (@ScotNational) January 30, 2020
Take a picture with our front page and share it with the hashtag #LeaveALightOn pic.twitter.com/0RlNNEulSR