Fagskrifstofur í mennta- og menningarmálaráðuneyti Lilju Daggar Alfreðsdóttur verða efldar en stoðskrifstofum fækkað samkvæmt nýju skipulagi sem kynnt var í ráðuneytinu í dag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu, en breytingarnar byggja meðal annars á ítarlegri vinnu sem ráðuneytið vann í samstarfi við Capacent, og hefur skýrsla um það starf nú verið birt.
Í henni segir meðal annars, að greining á starfsemi ráðuneytisins, hafi leitt í ljós að skilvirkni væri ekki nægileg, og formleg greining á álagi - sem margir kvörtuðu yfir - væri ekki til staðar. Þá væri erindum svarað seint og illa.
„Þessum breytingum er ætlað að bæta og hraða afgreiðslu mála, skerpa yfirsýn og styrkja ráðuneytið sem öflugan og samstíga vinnustað. Við viljum efla kjarnastarfsemi ráðuneytisins, dreifa verkefnum betur milli skrifstofa og starfsfólks og laga okkur að breyttum þörfum samfélagsins. Margvíslegar skyldur hvíla á ráðuneytinu, bæði gagnvart almenningi og okkar 53 stofnunum, og því er mikilvægt að ráðuneytið gangi eins og vel smurð vél,“ segir Lilja í tilkynningu.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir, að vinnulag og ferlar verði endurskoðaðir, gæða- og mannauðsmál fái aukið vægi „sem og upplýsingamiðlun til almennings, stofnana og starfsfólks“. Nýtt skipurit tekur gildi 15. febrúar.
Páll Magnússon er ráðuneytisstjóri í ráðuneytinu.
Úttektin, sem Capacent og ráðuneytið unnu að, fólst meðal annars í umfangsmikilli rýni á ferlum, gögnum og skipuriti, ítarlegum viðtölum við starfsfólk, viðhorfsmælingum og vinnufundum með fulltrúum fjölmargra stofnana. Boðaðar breytingar á skipulagi byggja á þeirri vinnu, þar sem margir lögðu hönd á plóg, segir í tilkynningu.
Skrifstofa menningarmála og fjölmiðla verður að stærstum hluta óbreytt frá núverandi skipulagi. Skrifstofu mennta og vísindamála verður skipt í þrennt;
1) skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála,
2) skrifstofu framhaldsskóla og -fræðslu og
3) skrifstofu háskóla og vísinda.
Hver skrifstofa verður öflug og heildstæð eining, að mestu sjálfri sér nóg um afgreiðslu mála og mun því ekki þurfa stoðþjónustu í sama mæli og áður.
Skrifstofa laga og stjórnsýslu verður lögð niður og starfandi lögfræðingar færast til fagskrifstofanna eftir sérsviðum. Málefni sem áður tilheyrðu skrifstofu yfirstjórnar færast til ráðuneytisstjóra og skrifstofu fjármála og rekstrar.
„Það mun taka tíma að ná settum markmiðum, en það er nauðsynlegt að hefja þess vegferð strax, til hagsbóta fyrir menningu, menntun og íþróttastarf í landinu,“ segir Lilja í tilkynningu.