Norrænu höfuðborgirnar búa yfir mestri samkeppnishæfni allra svæða á Norðurlöndum. Reykjavík er í fjórða sæti á eftir Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Fyrst og fremst er það ónæg framleiðni og takmarkað fjármagn til rannsókna og þróunar sem dregur höfuðborgarsvæðið niður.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar – State of the Nordic region, sem unnin er af Nordregio og birtist í dag.
Í skýrslunni eru bornar saman tölfræðilegar upplýsingar frá 74 svæðum á Norðurlöndum og þeim raðað eftir samkeppnishæfni með hliðsjón af því hvernig þeim tekst að laða að sér bæði fjármagn og mannauð.
Eins og áður segir heldur höfuðborgarsvæðið fjórða sætinu frá því fyrir tveimur árum en Ósló er í toppsæti listans. Kaupmannahöfn og nágrenni eru í öðru sæti og Stokkhólmur hefur fallið af toppnum í þriðja sætið. Samkvæmt skýrsluhöfundum draga flokkarnir „verg svæðisbundin framleiðsla“ og „fjármagn veitt til rannsókna og þróunar“ höfuðborgarsvæðið helst niður. Stór-Reykjavíkursvæðið stendur þó annars vel, sérstaklega varðandi þætti sem snúa að atvinnuþátttöku og lýðfræðilegri þróun.
Suðurnes efst þegar skoðuð eru dreifbýlissvæði
Fjögur svæði á Íslandi skora hátt í norrænum samanburði, samkvæmt skýrslunni, og eru í fyrstu fjórum efstu sætunum þegar aðeins eru skoðuð dreifbýlissvæði.
Efst eru Suðurnes, svo Norðurland eystra, því næst Suðurland og loks Vesturland. Þó er tekið fram að nýjustu tölfræðiupplýsingar séu frá byrjun árs 2019 eða fyrir gjaldþrot WOW og þær efnahagslegu áskoranir sem fylgt hafa í kjölfarið.
Eins hamli skortur á tölfræði frá Íslandi eftir svæðum og sveitarfélögum samanburð við mörg svæði annarra norrænna landa þar sem slíkar upplýsingar séu aðgengilegar og markvisst skráðar eftir svæðum. Skortur á svæðisbundinni skráningu mikilvægra tölfræðiþátta á Íslandi geti þess vegna valdið skekkjum í nákvæmni mælinga á landsbyggðinni.