Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að nú þegar hagkerfið sé að kólna sé það kostur að losa um eignarhald ríkisins í bönkum og nota fjármunina sem fást út úr slíkri sölu í innviðafjárfestingar. Því sé tímabært að hefja undirbúning á sölu Íslandsbanka. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Bjarni að miðað við verðmat markaðarins á fjármálafyrirtækjum sé ólíklegt að við fengjum fullt bókfært verð fyrir bankann, en eigið fé hans er um 170 milljarðar króna í dag. „Það er engu að síður rétt að mínu mati að losa um eignarhaldið í skrefum og 25 prósent hlutur í bankanum er tuga milljarða króna virði. Þá fjármuni ættum við að nýta til arðbærra fjárfestinga í innviðum.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bjarni talar á þessum nótum á kjörtímabilinu. Hann hefur þvert á móti ítrekað sagt að hann sé þeirrar skoðunar að hann vilji hefja söluferli á hlut ríkisins í ríkisbönkunum, Íslandsbanka og Landsbanka, á þessu kjörtímabili, en því lýkur væntanlega næsta vor. Bjarni vill þó halda eftir minnihlutaeign í Landsbankanum. Í september sagði Bjarni til að mynda að hann vonaðist til að söluferlið gæti hafist á næstu vikum.
Bankasýslan undirbýr söluferli
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem skilað var inn síðla árs 2018, var fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og er horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Þá var einnig lagt til að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig megi efla samstarf bankanna á sviði innviða í fjármálakerfinu, til að auka hagræðingu í bankakerfinu og bæta þannig kjör til neytenda.
Greint var frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í byrjun septembermánaðar í fyrra að í nýlegu gerðu minnisblaði Bankasýslu ríkisins, sem fer með hlutina í bönkunum fyrir hönd ríkissjóðs, væri lagt til að annað hvort ætti að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði og skrá þau bréf tvíhliða á markað, eða að selja allt að öllu hlutafé í bankanum með uppboðsleið þar sem önnur fjármálafyrirtæki eða sjóðir geti gert tilboð í hann.
Bankasýslan hefur ekki lagt það minnisblað enn fram opinberlega.
Mikill meirihluti vildi að ríkið eigi banka
Alls voru 61,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka samkvæmt rannsókn sem Gallup vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hafði enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga voru neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Markmið könnunarinnar var að skoða ítarlega traust til bankakerfisins á Íslandi, hverjar væru helstu ástæður fyrir vantrausti og hvað mætti betur fara. Úrtakið var 1.408 manns 18 ára og eldri af landinu öllu. Þátttökuhlutfall var 54,5 prósent.
Þegar þeir sem eru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 prósent þeirra, eða tæplega fjórðungur, að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili. Fimmtungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 prósent vegna þess að arðurinn færi þá til almennings. Þá sögðu 15,7 prósent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlutirnir myndu enda illa og að spilling og græðgi yrði minni.