Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri á skipinu Heinaste, sem Samherji gerði út við strendur Namibíu, var dæmdur í dag til að greiða 7,9 milljónir króna í sekt eða sæta tólf ára fangelsisvist vegna ólöglegra veiða. Kröfu ákæruvaldsins um að fá að leggja hald á fiskiskipið Heinaste sem hann stýrði var vísað frá dómi. The Namibian Sun greinir frá í dag á Twitter.
Fram kom í fréttum í lok janúar að Arngrímur hefði játað sök vegna ásakana um ólöglegar veiðar.
JUST IN: Captain of Samherji's Heinaste vessel, Angrimur Brynjolfsson (67), was sentenced to a fine of N$950 000 or 12 years imprisonment on three counts related to illegal fishing in Namibian waters. The application by the State to forfeit the vessel Heinaste was dismissed. pic.twitter.com/0kp9xvITia
— Namibian Sun (@namibiansun) February 5, 2020
Í yfirlýsingu sem Arngrímur sendi frá sér, skömmu eftir að hann var handtekinn, sagðist hann hafa verið í sinni síðustu sjóferð sem skipstjóri, en hann er 67 ára gamall. Hann sagðist hafa verið í góðri trú um að veiðarnar hafi verið löglegar, og utan bannsvæðis.
Arngrímur var hendtekinn 20. nóvember, rúmlega viku eftir að afhjúpandi umfjöllun Kveiks, Wikileaks og Al Jazeera, hafði birst, þar sem fjallað var um starfsemi Samherja í Namibíu, og meintar mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti, en þessi mál eru nú til rannsóknar, meðal annars á Íslandi, í Noregi og einnig í Namibíu og Angóla.
Arngrímur játaði sök, eins og áður segir, en málið snérist um það, að skipið sem hann stýrði hefði verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu.
Arngrímur hefur verið í farbanni frá því málið kom upp, og þurfti að reiða fram um 850 þúsund krónur í tryggingu, þar til dómur myndi falla í máli hans. Togarinn var kyrrsettur af namibískum yfirvöldum og er það staða mála enn þann dag í dag.