Mikill meirihluti landsmanna býr í dag í þéttbýli, eða 95 prósent, en í byrjun síðustu aldar var raunin hins vegar talsvert önnur þegar sama hlutfall var einungis tæplega fjórðungur eða 24 prósent. Frá þessu greindi Hagstofan á vef sínum í gær.
Breytingin er síðan, samkvæmt Hagstofunni, enn meiri sé farið aðeins lengra aftur í tímann og miðað við árið 1880 en þá var hlutfall þeirra sem bjuggu í þéttbýli aðeins 11 prósent.
Þá kemur fram að fjöldi þeirra sem byggðu landið hafi á þeim tíma verið eðli málsins samkvæmt mun minni en hann er í dag og byggðakjarnar að sama skapi færri. Þannig hafi þeir sem bjuggu í þéttbýli árið 1880 verið um 8.600 manns í 47 byggðakjörnum, bæði smáum og stórum, en um 64.000 manns í strjálbýli sem í flestum tilfellum voru bæir í sveit.
„Fram til aldamóta 1900 var þéttbýlismyndun nokkuð hröð sem sést á því að íbúum í alls 66 þéttbýliskjörnum hafði þá fjölgað í 18.800. Á sama tíma hafði íbúum í strjálbýli fækkað að höfðatölu, voru þá komnir niður í 59.400, og hlutfallið orðið 76 prósent af landsmönnum. Þegar kom fram á árið 1922 var svo komið að meirihluti landsmanna bjó í þéttbýliskjörnum en þá voru þéttbýliskjarnarnir 74 að tölu,“ segir á vef Hagstofunnar.
Þróunin hélt áfram hægt og bítandi
Fram kemur hjá Hagstofunni að miklar þjóðfélagsbreytingar á Íslandi felist á bak við þessar tölur sem meðal annars fólu í sér búferlaflutninga úr sveitum landsins til þéttbýlisstaða víðs vegar um land jafnhliða umbreytingu atvinnulífsins frá landbúnaði, sem aðalatvinnuvegar landsmanna í gegnum aldirnar, yfir í sjávarútveg, iðnað og þjónustu.
Þessar mannfjöldabreytingar og þróun atvinnulífs hafi svo haldið áfram næstu áratugina og árið 1982 hafi verið svo komið að rúmlega 90 prósent landsmanna bjó í þéttbýli, eða 212.400 manns, og hafi fjöldi þéttbýliskjarna verið kominn í 101. Þar með hafi tala íbúa í strjálbýli verið komin undir 10 prósenta mörkin og íbúafjöldinn þar um 23.000. Á síðustu áratugum hafi þróunin haldist áfram hægt og bítandi og séu þéttbýlisbúar í dag um 95 prósent landsmanna í 106 þéttbýliskjörnum á móti 5 prósent íbúum sem búa í strjálbýli.