Þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um að Björgólfur Jóhannsson tæki við tímabundið sem forstjóri Samherja þann 14. nóvember 2019, fyrir tæpum þremur mánuðum síðan, er hann hvorki skráður í framkvæmdastjórn fyrirtækisins né með prókúru, sem veitir heimild til úttektar af bankareikningum, fyrir það í hlutafélagaskrá ríkisskattstjóra.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir talskona Samherja að fyrirtækið hafi tilkynnt um breytta prókúru hinn 30. janúar síðastliðinn í samræmi við ákvörðun stjórnar Samherja um ráðningu hins nýja forstjóra. Það komu hins vegar fram athugasemdir við tilkynninguna sem Samherji þurfti að bregðast við og er verið að vinna í því að senda inn nýja tilkynningu sem við teljum að komi til móts við þær athugasemdir sem bárust. Ákvörðun stjórnar Samherja frá 14. nóvember sl. um ráðningu nýs forstjóra tímabundið stendur og hefur Björgólfur Jóhannsson verið forstjóri félagsins frá þeim tíma.“
Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá er Þorsteinn Már Baldvinsson, sem steig tímabundið til hliðar sem forstjóri Samherja á sama tíma og Björgólfur var ráðinn, enn skráður í framkvæmdastjórn bæði Samherja hf. og Samherja Holding ehf., sem saman mynda uppistöðu Samherjasamstæðunnar. Hann er einnig skráður með prókúru hjá báðum félögum ásamt Jóni Rafni Ragnarssyni, fjármálastjóra samstæðunnar. Aðspurð um þessa skráningu segir talskona Samherja að Þorsteinn Már hafi látið af störfum sem forstjóri þann 14. nóvember og hafi „ekki verið í framkvæmdastjórn frá þeim tíma. Prókúra hans féll niður frá sama tíma.“
Steig til hliðar eftir Kveik
Þann 12. nóvember 2019 birtist umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Tveimur dögum síðar tilkynnti Samherji að Þorsteinn Már, sem er aðaleigandi Samherja ásamt frænda sínum Kristjáni Vilhelmssyni og fyrrverandi eiginkonu sinni Helgu S. Guðmundsdóttur, hefði stigið tímabundið til hliðar sem forstjóri og að Björgólfur tæki við, sömuleiðis tímabundið.
Í tilkynningunni var haft eftir Eiríki S. Jóhannessyni, stjórnarformanni Samherja, að þetta skref væri stigið til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknar norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á ætluðum brotum Samherja. „Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur.“
Rannsókn Wikborg Rein heyrir beint undir stjórn Samherja og fyrirtækið greiðir fyrir hana.
Ekki útilokað að Þorsteinn Már snúi aftur
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er stefnt að því að niðurstöður Wikborg Rein liggi fyrir í apríl næstkomandi. Yfirvöld í Namibíu, Angóla, Íslandi og í Noregi eru einnig að rannsaka mál tengd Samherja og fjölmargir hafa verið ákærðir fyrir spillingu og önnur efnahagsbrot nú þegar í Namibíu vegna Samherjamálsins, meðal annars tveir fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn landsins.
Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv sem birt var um miðjan desember í fyrra sagði Björgólfur að hann byggist við því að hann myndi ljúka hlutverki sínu sem tímabundinn forstjóri Samherja á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020.
Í viðtali við vefmiðilinn Intrafish, sem sérhæfir sig í umfjöllun um sjávarútvegsmál, sem birt var í janúar var hafði sá tími sem Björgólfur vænti þess að vera í starfi þó lengst. Þar sagðist hann ekki reikna með því að sitja í forstjórastólnum lengur en fram á mitt ár 2020. Þar útilokaði Björgólfur enn fremur ekki að Þorsteinn Már myndi snúa aftur í stólinn. „Hann hefur verið starfandi í sjávarútvegi á Íslandi í mörg ár og er líklega sá náungi sem veit mest um sjávarútveg á Íslandi og í Evrópu,“ sagði Björgólfur um Þorstein Má.