Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ákvað á fundi þann 23. janúar síðastliðinn að endurgreiða öllum lántökum sem tekið hafa verðtryggð lán með breytilegum vöxtum á tímabilinu frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017 ofgreidda vexti sem þeir hafa greitt frá og með júní 2019.
Með þessu er sjóðurinn að bregðast við ákvörðun Neytendastofu frá desember 2019 um sjóðurinn hafi ekki mátt breyta því hvernig verðtryggðir breytilegir vextir hluta húsnæðislána sjóðsfélaga hans voru reiknaðir út. Það hafi verið í andstöðu við ákvæði eldri laga um neytendalán.
Alls hefur ákvörðun Neytendastofu áhrif á öll lán með verðtryggða breytilega vexti sem gefin voru út frá ársbyrjun 2001 til apríl 2017 og varðar vaxtagreiðslur frá maí 2019. Um er að ræða átta prósent af öllum sjóðsfélagslánum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Í frétt á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá því snemma í janúar segir að gert sé ráð fyrir því, með fyrirvara um nánari skoðun, kostnaður sjóðsins vegna þessa sé innan við 30 milljónir króna, eða að meðaltali um tíu þúsund krónur á hvert lán.
Þetta sagði Neytendastofa að væri ólöglegt að gera gagnvart þeim sem tóku lán fyrir hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna fyrir apríl 2017.
í tilkynningu á vef sjóðsins segir að á stjórnarfundinum 23. janúar síðastliðinn hafi verið ákveðið „að færa vaxtaviðmið aftur til fyrra horfs og þar sem vextir samkvæmt því viðmiði hafa reynst lægri en þeir vextir sem tilkynntir voru í maí 2019 mun sjóðurinn endurgreiða lántökum mismuninn.“
Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum munu þeir lántakar sem breytingin snertir fá send bréf fyrir febrúarlok um áhrifin á lán þeirra auk þess sem nánari upplýsingar verða birtar á sjóðfélagavef viðkomandi lántakenda.
Þótt áhrifin á umrædda lántakendur hafi verið lítil frá því að ákvörðunin tók gildi, í ágúst í fyrra, þá geta þau verið mikið til framtíðar. Lán þeirra munu enda halda áfram að miða við ávöxtunarkröfu skuldabréfaflokksins HFF150434 að viðbættu 0,75 prósentustiga álagi. Í dag myndi það þýða að breytilegir verðtryggðir vextir hópsins væri 1,73 prósent, eða 30 prósent lægri en þeir vextir sem bjóðast þeim sem tóku breytileg verðtryggð lán hjá sjóðnum eftir apríl 2017.