Niðurstaða stjórnar SORPU bs. fyrr í dag, um að segja mér upp starfi framkvæmdastjóra er mér mikil vonbrigði enda er ekkert út á störf mín að setja. Uppsögninni virðist því einkum ætlað að varpa athyglinni frá ábyrgð stjórnar á þeirri áætlanagerð SORPU bs. sem er til umræðu.
Pólitísku „handafli“ beitt við gerð kostnaðaráætlunar
Staðreyndin er sú að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar í Álfsnesi var ákveðin af stjórn SORPU bs. samkvæmt fyrirmælum frá eigendafundi SORPU bs. á grundvelli kostnaðaráætlunar sem stjórn og eigendur útbjuggu sjálfir út frá eigin forsendum. Ég samþykkti ekki þessa kostnaðaráætlun og gerði ekki tillögu um hana. Þetta kemur allt skýrt fram í fundargerðum.
Þessi ákvörðun var því tekin með pólitísku „handafli“ til að tryggja að framkvæmdir hæfust sem fyrst og án tillits til óvissu um kostnað, en sú óvissa hlaut reyndar alltaf að verða umtalsverð með hliðsjón af flækjustigi þessarar einstæðu framkvæmdar. Þessi ákvörðun helgaðist að mínu viti af ríkri kröfu um að uppbyggingu stöðvarinnar og tengdum framkvæmdum væri lokið fyrir árslok 2020.
Virðist mögulega sem stjórnarmenn og eigendur SORPU bs. hafi hér ætlað sér að skáka í því skjóli að framkvæmdum yrði lokið talsvert fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar 2022. Kjósendur væru því ólíklegir til að minnast málsins þegar þar að kemur.
Telji einhver vafa leika á hvar ábyrgðin liggur má auk þessa vísa til þess að skýrt kemur fram í eigendastefnu SORPU að áhættumat í tengslum við lántökur sé á ábyrgð og hendi stjórnarmanna. Sú ábyrgð er því ekki framkvæmdastjóra.
Stjórn hafði allar upplýsingar
Ég er borinn þeirri fjarstæðu að hafa leynt stjórn upplýsingum um greiðsluáætlanir. Sú staðhæfing er studd af hálfu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar með áætlun frá verkfræðistofu sem ég sá aldrei og jafnvel enginn starfsmaður SORPU ef út í það er farið. Sýnir það hversu hroðvirknislega hefur verið staðið að rannsókn máls.
Stjórn SORPU var síðan eða mátti vera kunnugt á öllum stigum máls um nákvæman kostnað sem til var fallinn vegna verkefnisins allt frá árinu 2012. Þessar upplýsingar lágu fyrir í bókhaldi SORPU, voru hluti endurskoðunarskýrslu sem fylgdi ársreikningi 2018 og lögð var fyrir stjórn 1. mars 2019. Þá hafa þær legið fyrir í fyrningarskýrslum frá upphafi. Öll þessi gögn voru stjórn að sjálfsögðu aðgengileg.
Tilraun stjórnar til að bera fyrir sig vanmátt vegna mannabreytingar í stjórn er óásættanleg. Nýir stjórnarmenn fá aðgang að öllum upplýsingum um SORPU, öllum stjórnarfundargerðum og gögnum sem lögð hafa verið fram á stjórnarfundum auk þess sem öllum fyrirspurnum þeirra er sinnt. Skylda stjórnarmanna sjálfra er að sjálfsögðu að kynna sér þessi gögn og afla sér þeirrar vitneskju um starfsemi fyrirtækisins sem þeir telja sig þurfa.
Hafi stjórnarmenn kastað til hendinni, verið vanmáttugir til að axla skyldur sínar eða vanrækt þær af öðrum ástæðum geta þeir ekki kennt mér um.
Innri endurskoðandi vanhæfur vegna fjölskyldutengsla
Skýrsla innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar gagnrýnir mín störf en tekur ekkert tillit til þess að stjórn og eigendafundur útbjuggu kostnaðaráætlunina. Þá byggir skýrslan á röngum staðhæfingum og ályktunum í veigamiklum atriðum og er ómarktæk í heild sinni. Með skýrslunni er því ómaklega vegið að faglegu starfi SORPU en ég fullyrði, að ég og allir starfsmenn SORPU hafi kappkostað í störfum sínum að gæta hagsmuna fyrirtækisins og almennings í öllu tilliti.
Ég kann engar skýringar á því hversu illilega innri endurskoðandi hrapar að röngum niðurstöðum sínum. Hitt er þó ljóst að hann var bersýnilega vanhæfur til þess að framkvæma þessa rannsókn enda er móðurbróðir hans stjórnarmaður íslenska gámafélagsins hf.
Það félag er einn helsti keppinautur SORPU og hefur haft alveg sérstakt horn í síðu SORPU svo árum skiptir. Meira að segja vann félagið gegn því að útboð vegna jarð- og gasgerðarstöðvarinnar færu fram í eðlilegum takti.
Hlutdrægni innri endurskoðanda birtist m.a. í því að skýrsla hans er í beinni mótsögn við yfirlýstar skoðanir hans sjálfs. Í nýlegri skýrslu frá mars 2019 um verklegar framkvæmdir og innkaupamál hjá Reykjavíkurborg, þegar innri endurskoðandinn réttlætti meðal annars 79% framúrkeyrslu við Mathöllina við Hlemm (í samanburði við kostnaðaráætlun um fullhannað mannvirki), segir á bls. 16:
„Í fjölmiðlaumfjöllun um kostnað vegna mannvirkjagerðar er kostnaður oft miðaður við frumkostnaðaráætlun sem er algjörlega óraunhæft því miða skal við kostnaðaráætlun um fullhannað mannvirki.“
Svo virðist sem endurskoðandinn hafi með öllu gleymt þessari skoðun sinni við mat á áætlanagerð SORPU. Nærtækt er því að álykta að endurskoðandinn hafi blindast af sérhagsmunum móðurbróður síns við gerð skýrslunnar.
Harma niðurstöðu
Aðdragandi og meðferð stjórnar á málinu gegn mér var öll í skötulíki. Mér var í upphafi árs tilkynnt að minna starfskrafta væri ekki lengur óskað. Fyrst þegar sú niðurstaða lá fyrir var mér veitt lögbundið tækifæri til andmæla og þá aðeins í orði kveðnu. Frestur til andmæla var óhóflega naumt skammtaður og ég fékk ekki afhent öll gögn máls eins og ég á rétt til. Ásetningur stjórnarinnar að ganga gegn rétti mínum var því einbeittur.
Ég harma þá niðurstöðu sem er nú orðin í máli þessu með minni uppsögn. Heiðarlegra hefði verið fyrir stjórnina að líta í eigin barm og axla sjálf ábyrgð, frekar en að freista þess að varpa henni á mig.
12 febrúar 2020
Björn H. Halldórsson