Heildarmagn hrygningarloðnu samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu loðnumælinga dagana 1. til 9. febrúar er 250 þúsund tonn og hefur þá ekki verið tekið tillit til áætlaðra affalla úr stofninum vegna afráns fram að hrygningu.
Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar í dag.
Mælingin byggir á yfirferð sem RS Árni Friðriksson og uppsjávarveiðiskipin, Aðalsteinn Jónsson SU, Börkur NK, Margrét EA og Polar Amaroq, tóku þátt í. Mest reyndist vera af loðnu við Kolbeinseyjarhrygginn en einnig fannst loðna við landgrunnskantinn norðaustur og norðvestur af landinu.
Samkvæmt stofnuninni er niðurstaða þessarar mælingar töluvert undir því marki sem gefur Hafrannsóknastofnun tilefni, samkvæmt aflareglu, til að mæla með veiðikvóta. Svo það gerist má gróflega áætla að það þurfi að minnsta kosti 150 þúsund tonn til viðbótar að mælast.
„Þessi mæling á hrygningarstofni loðnu í febrúar er mun hærri en fyrri mælingin í janúar upp á 64 þúsund tonn og því þykir full ástæða til að gera þriðju mælinguna. Árni Friðriksson byrjaði þá mæliyfirferð 11. febrúar og munu veiðskip bætast við í mælinguna um og eftir helgi þegar óveður helgarinnar gengur niður,“ segir á vef stofnunarinnar.