Höskuldur H. Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, hefur boðið sig fram til setu í stjórn Skeljungs. Alls sækjast átta manns eftir fimm sætum í stjórninni og tilnefningarnefnd félagsins hefur lagt til lista yfir þá sem hún telur að eigi að skipa. Höskuldur er ekki þar á meðal.
Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar Skeljungs sem birt var í gærkvöldi. Kosið verður um nýja stjórn á aðalfundi félagsins sem fer fram 5. mars.
Tilkynnt var um það í apríl í fyrra að Höskuldur hefði sagt starfi sínu hjá Arion banka lausu. Starfslok hans kostuðu Arion banka 150 milljónir króna, en sú greiðsla samanstóð annars vegar af uppsagnarfresti og hins vegar samningi um starfslok.
Ekki mælt með Höskuldi
Þrír núverandi stjórnarmenn í Skeljungi, þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Birna Ósk Einarsdóttir og Þórarinn Arnar Sævarsson, gefa áfram kost á sér til stjórnarsetu. Jón Ásgeir, sem er varaformaður stjórnarinnar, er fulltrúi 365 ehf. og tengdra félaga þar, en þau eru stærstu eigendur Skeljungs með 11 prósent eignarhlut. Skráður eigandi félaganna er Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs.
Tveir stjórnarmenn, stjórnarformaðurinn Jens Meinhard Rasmussen og Ata Maria Bærentsen, gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Tilnefninganefnd Skeljungs mælir með að Dagný Halldórsdóttir, sem setið hefur í stjórnum ýmissa fyrirtækja í gegnum tíðina, og Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar, taki sæti þeirra. Auk Höskuldar hlutu Jón Gunnar Borgþórsson, sjálfstætt starfandi stjórnenda- og rekstrarráðgjafi, og Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, ekki náð fyrir augum tilnefninganefndarinnar. Í skýrslu hennar er þó tiltekið að Höskuldur sé vel hæfur til stjórnarsetu, líkt og þeir fimm sem tilnefndir eru. Hann búi til að mynda yfir mikilli reynslu af því að stýra stórum fyrirtækjum sem skráð eru á markað og af setu í stjórnum. Þar sé hins vega rum þekkingu og reynslu sem sé einnig að finna á meðal þeirra sem tilnefndir eru til stjornarsetu.
Tilnefningarnefndin áskilur sér þó rétt til þess að endurskoða fyrrnefnda tillögu sína. Slík endurskoðun getur legið fyrir þar til tíu dögum fyrir aðalfund.
Ný stjórn mun svo kjósa næsta stjórnarformann Skeljungs þegar hún kemur saman eftir aðalfund.
Leggja til 600 milljóna arðgreiðslu
Hagnaður Skeljungs á síðasta ári var 1,4 milljarðar króna, sem er nokkuð minni en tæplega 1,6 milljarða króna hagnaður ársins 2018. Framlegð hækkaði hins vegar um 11,4 prósent og EBITDA-hagnaður (hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta) hækkaði um 4,9 prósent.
Arðsemi eigin fjár félagsins var 15 prósent í fyrra og lækkaði úr 19 prósentum árið áður. Eigið fé Skeljungs í lok árs var 9,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 40,2 prósent. Alls keypti félagið eigin bréf fyrir 550 milljónir króna á árinu 2019 og skilaði því fé til hluthafa. Í ár er gert ráð fyrir 600 milljón króna arðgreiðslu til þeirra vegna frammistöðu síðasta árs og afskráningu eigin bréfa.
Ýmsar sviptingar voru hjá Skeljungi í fyrra. Jón Ásgeir settist í stjórn Skeljungs í fyrravor í krafti þess að 365 miðlar höfðu keypt upp hluti í félaginu.
Í lok sumar var svo Árni Pétur Jónsson ráðinn forstjóri félagsins. Árni Pétur var forstjóri Teymis á sínum tíma auk þess sem hann hafði starfað sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum. Síðast var hann forstjóri og einn aðaleiganda Basko.
Árni Pétur hefur áður unnið náið með, og fyrir, félög tengd Jóni Ásgeiri. Jón Ásgeir var til að mynda forstjóri og síðar stjórnarformaður Baugs Group, sem átti Haga og var stærsti hluthafinn í Teymi þegar Árni Pétur stýrði því fyrirtæki.
Skeljungur keypti í fyrrahaust allt hlutafé í Basko, sem á fimm 10-11 verslanir og rekur fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk sem reknar eru við bensínstöðvar Skeljungs. Þá á Basko veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill, verslunina Kvosina, auk matvöruverslana í Reykjanesbæ og á Akureyri. Alls 50 prósent eignarhlutur Basko í Eldum Rétt var undanskilinn frá kaupunum. Kaupverðið var 30 milljónir króna auk þess sem yfirteknar voru vaxtaberandi skuldir upp á 300 milljónir króna.