„Stórtækar“ breytingar á framkvæmd Hvalárvirkjunar kalla á nýtt umhverfismat

Það er mat Vesturverks að bráðnun Drangajökuls muni engin áhrif hafa á vinnslugetu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Í skipulagslýsingu er lagt til að svæði ofan áformaðs virkjanasvæðis fái hverfisvernd vegna nálægðar við jökulinn.

Fossinn Rjúkandi
Fossinn Rjúkandi
Auglýsing

Til stendur að land ofan fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalárvirkjunar í Árneshreppi fái notið hverfisverndar vegna nálægðar við Drangajökul. Svæðið yrði rúmlega 10.000 hektarar að stærð. Innan þess er að finna nokkuð magn steingervinga. Þeir finnast einnig utan hins fyrirhugaða verndarsvæðis og njóta verndar sem slíkir samkvæmt lögum.

Þetta kemur fram í skipulags-  og matslýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi hreppsins og í svörum til Kjarnans frá Vesturverki sem áformar að reisa virkjunina. Skipulags- og matslýsingin var nýlega auglýst en frestur til að skila athugasemdum rann út 19. febrúar. 

Í umsögn Landverndar um lýsinguna kemur fram að „hverfisvernd utan um einstaka minjar við hlið ákvörðunar um risavaxna eyðileggingu náttúruverðmæta er ekki svæðinu til framdráttar“. Samtökin segja að skýrt hafi komið fram að svæðið allt þarfnist verndar. „Sveitarfélagið er því hvatt til að hlusta á ráðleggingar innlendra og erlendra sérfræðinga og stöðva eyðilegginguna á ómetanlegum náttúruverðmætum innan marka sveitarfélagsins.“

Auglýsing

Hvalárvirkjun er fyrirhuguð á svæði sem nú er óbyggt víðerni. Með henni yrði rennsli Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár virkjað með miðlunarlónum á Ófeigsfjarðarheiði, aðrennslisgöngum niður í Ófeigsfjörð, stöðvarhúsi neðan Strandarfjalla og útrás í Hvalá. Gert er ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar verði 55 MW og ársframleiðsla 320 GWh/a.

Helstu þættir aðalskipulagsbreytinganna sem standa fyrir dyrum eru breytt umfang virkjunarinnar og tengdra framkvæmda. Meðal annars er áformað að setja inn ákvæði þar sem skilgreindar eru fimm stíflur til myndunar miðlunarlóna: Rjúkandastífla í Rjúkanda og Vatnalautastífla í Hvalá myndi Vatnalautalón, Hvalárvatnsstífla í Neðra-Hvalárvatni og Dagverðardalsstífla í Efra-Hvalárvatni myndi Hvalárlón og Eyvindarfjarðarvatnsstífla myndi Eyvindarfjarðarlón í Neðra-Eyvindarfjarðarvatni.

Gera verði nýtt umhverfismat

Í umsögn Landverndar við skipulags- og matslýsinguna kemur fram að samtökin telja að breytingar á framkvæmdinni Hvalárvirkjun sem þar er greint frá séu svo stórtækar að gera verði nýtt umhverfismat framkvæmda vegna þeirra. „Hér er um að ræða alveg nýtt landtökusvæði/höfn í óspilltri náttúru, mikla stækkun starfsmannabúða, nýtt mannvirki („gestastofu“) viðbótarvegi og fjölda nýrra náma. Þá verður fyrirhuguðum lónum breytt og stíflugarðar hækka (þó það sé ekki tekið fram í skýrslunni).“

Landvernd minnir í umsögn sinni á álit Skipulagsstofnunar á fyrirliggjandi umhverfismat Hvalárvirkjunar hafi verið virkjuninni mjög óhagfellt, „þar sem enginn þeirra þátta sem metnir voru, voru taldir hafa jákvæð áhrif en þrír af þeim þáttum sem voru metnir taldir hafa verulega neikvæð áhrif.“ Ekki sé gerð grein fyrir þessu í matslýsingunni.

Fossinn Drynjandi í Hvalá. Mynd:Landvernd

Þá bendir Landvernd á að í kafla um eignarhald á landi sem færi undir virkjunina sé ekkert minnst á landamerkjadeilur sem nú standa um vatnasvið það sem Hvalárvirkjun myndi taka til. „Þessar deilur gætu ráðið úrslitum um útfærslu, áhrif og afdrif virkjunarinnar og því eðlilegt að geta þeirra.“

Hvalá í Ófeigsfirði á upptök á Ófeigsfjarðarheiði ofan við Nyrðra-Vatnalautavatn og rennur þaðan í gegnum Nyrðra-Vatnalautarvatn og Neðra-Hvalárvatn til sjávar. Vatnasvið Hvalár, sem hefur afrennsli af Ófeigsfjarðarheiði, nær allt norður til suðurenda Drangajökuls og suður að vatnaskilum við Selá í Steingrímsfirði og er ós hennar skammt frá bæjarhúsum Ófeigsfjarðar. Eyvindarfjarðarvötn eiga vatnasvið upp að suðausturenda Drangajökuls.

Friðlýsingartillaga enn í ferli hjá Umhverfisstofnun

Vorið 2018 lagði Náttúrufræðistofnun Íslands til að Drangajökull og nágrenni hans yrði friðlýst. Í greinargerð með tillögunni kom meðal annars fram að á svæðinu væri tilkomumikið landslag mótað af jöklum ísaldar og þar væru fyrir hendi mjög virk landmótunarferli og litfögur set- og hraunlög. Telur stofnunin að Drangajökulsvíðerni hafi hátt vísindalegt gildi, sérstaklega vegna jökulsögu og  fornloftslagssögu landsins. Friðlýsingartillagan er enn til meðferðar hjá Umhverfisstofnun.

Landvernd telur það mjög alvarlegan ágalla á skipulags- og matslýsingunni að í kafla um ný gögn sé  sé ekki getið um friðlýsingartillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands og skýrslu Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, IUCN, þar sem segir að virkjun myndi valda verulegum breytingum á vatnafari, hafa neikvæð áhrif á landslag, náttúrulegan breytileika og náttúrulega ferla.

Niðurstöður nýrrar fornloftslagsrannsóknar sem gerð var við Drangajökul benda til þess að með áframhaldandi hlýnun gæti jökullinn horfið eða verið um það bil að hverfa um árið 2050. Þá eru líkur á að hitastig verði orðið það sama og það var fyrir um 9000 árum er forveri hans á svæðinu hvarf. Aðalhöfundur rannsóknarinnar, fornloftslagsfræðingurinn David John Harning, benti í samtali við Kjarnann á að niðurstöðurnar gætu nýst stjórnvöldum til stefnumótunar, til dæmis þegar komi að fyrirhuguðum vatnsaflsvirkjunum.

Bráðnun jökulsins mun ekki hafa áhrif

Það er mat Vesturverks að bráðnun Drangajökuls muni ekki hafa áhrif á vinnslugetu Hvalárvirkjunar þar sem hún myndi fyrst og fremst nýta rennsli í dragám á svæðinu. Gera megi ráð fyrir lítilsháttar jökulvatni í árfarvegi sem leiðir að Eyvindarfjarðarlóni en það myndi enga þýðingu hafa fyrir vatnsbúskap virkjunarinnar. Ekkert jökulvatn finnst í Hvalá eða Rjúkanda, segir í svörum Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, við fyrirspurn Kjarnans.  

Drangajökull hvarf fyrir 9.000 árum er hitastig var jafn hátt og það verður um árið 2050.  Mynd: Jutta Würth

Birna bendir á að dragár séu bergvatnsár sem myndist smám saman þegar yfirborðsvatn í lækjum leitar sameiginlegs farvegs. „Mögulegt hvarf Drangajökuls mun því hafa óveruleg eða engin neikvæð áhrif á Hvalárvirkjun,“ skrifar Birna. Hún segir sömu sögu að segja hvað Skúfnavatnavirkjun, sem Vesturverk áformar einnig á svæðinu, varðar. „Hverfi jökullinn mun áfram rigna og snjóa í fjöll og úrkoman mun því skila sér í sama mæli til virkjunarinnar. Jafnvel gæti hvarf jökulsins gert það að verkum að rennsli til virkjananna eykst.“

Í skipulags- og matslýsingunni kemur fram að markmið fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar sé að auka framleiðslu raforku innan Vestfjarða og um leið bæta afhendingaröryggi þar. Stefnt er að því að tengja hana flutningsnetinu með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði og í nýjan tengipunkt sem Landsnet myndi reisa í Ísafjarðardjúpi. Þaðan yrði rafmagnið flutt með loftlínum yfir Kollafjarðarheiði og að Vesturlínu.

Ferlið of stutt á veg komið

„Á þessu stigi getur enginn fullyrt hvert orkan úr Hvalá verður á endanum seld enda ferlið allt of stutt á veg komið til þess,“ segir í svörum frá Vesturverki um þetta atriði. Þar kemur fram að undirrituð hafi verið viljayfirlýsing um sölu á 10 MW til Íslenska kalþörungafélagsins, sem fyrirhugar að reisa kalþörungaverksmiðju í Súðavík. Mögulega verði orkuþörf verksmiðjunnar meiri þegar fram í sæki. Þá er bent á að stór áform séu uppi um uppbyggingu í fiskeldi á norðanverðum Vestfjörðum sem muni kalla á meiri orku en fáanleg er á svæðinu í dag. Þess utan horfi vestfirsk sveitarfélög og atvinnulíf til orkuskipta, til dæmis í tengslum við sjávarútveg og móttöku skemmtiferðaskipa.

Í svörum Vesturverks kemur fram að öll orka sem unnin yrði í Hvalá mun renna inn á raforkukerfi Vestfjarða í gegnum Vesturlínu og þaðan út á meginflutningskerfið ef hún nýtist ekki öll innan svæðisins. Það sem ekki myndi nýtast á Vestfjörðum myndi nýtast í miðlæga raforkukerfinu óháð því hver kaupandi orkunnar yrði og hvar hann yrði staðsettur.  „Miðað við ýmis spennandi framtíðaráform í uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum þá gerir Vesturverks sér vonir um að selja strax í upphafi vænan skerf orkunnar til Vestfjarða,“ segir í svörum Vestuverks.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent