Endurgreiðsluhlutfall á ristjórnarkostnaði einkarekinna fjölmiðla á að hækka úr 18 í 20 prósent, slakað verður á kröfum um útgáfutíðni til að mæta sjónarmiðum héraðsmiðla og miðlar sem skrifa efni sem fellur undir mikilvæga lýðræðislega umræðu á öðrum tungumálum en íslensku verða styrkjahæfir. Þá mun heimild til að fela þriðja aðila umsýslu vegna útgreiðslu endurgreiðslna til fjölmiðla færast frá mennta- og menningarmálaráðherra til fjölmiðlanefndar.
Þetta er meðal þess sem lagt er til ígreinargerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins um umsagnir við frumvarp til laga sem á að koma á stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla sem nýverið var birt á vef Alþingis. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og sérfræðingar ráðuneytisins, sem unnu greinargerðina, komu á fund hennar í dag til að gera grein fyrir breytingartillögunum.
Þurfa að ákveða hvernig eigi að skipta 400 milljónum
Frumvarpið hefur átt margra ára aðdraganda. Það var kynnt í samráðsgátt í janúar 2019 og því var fyrst dreift á Alþingi 20. maí sama ár. Ekki náðist hins vegar að mæla fyrir því fyrr en 16. desember sama ár. Það hefur nú verið til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd í rúma tvo mánuði.
Ekki er tilgreint sérstaklega í frumvarpinu hversu mikið af 400 milljónunum eigi að fara í endurgreiðslur á ritstjórnarkostnaði og hversu mikið eigi að fara í sérstaka stuðninginn við stóru fjölmiðlanna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur til að það verði tilgreint í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar hvernig þessum greiðslum skuli skipt og að sérstaki stuðningurinn verði greiddur af launum upp að öðru skattþrepi, í ljósi þess að nýju lægra skattþrepi var bætt við hérlendis um síðustu áramót.
Mæta héraðsmiðlum og einyrkjum
Af greinargerðinni að dæma er ljóst að mennta- og menningarmálaráðuneytið ætlar sér að taka mark á mörgu sem athugasemdir hafa verið gerðar við frumvarpið.
Þar segir að ráðuneytið leggist ekki gegn því að slakað verði á kröfum um útgáfutíðni og um nýtt efni á netmiðlum þannig að það verði til að mynda nægjanlegt að prentmiðlar komi út 44 sinnum á ári og að einungis verið skylt að setja nýtt efni á netmiðla á virkum dögum 44 vikur á ári. Áður var skilyrðið 48 blöð á ári og að nýju efni yrði miðlað daglega
Þá leggur mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur til að ákvæðum í verði breytt þannig að í úthlutunarnefnd sem tekur afstöðu til umsókna um endurgreiðslur skuli skipaðir einn sem uppfylli starfsgengisskilyrði héraðsdómara, einn skuli vera löggiltur endurskoðandi og sá þriðji hafi sérþekkingu á fjölmiðlum eða fjölmiðlarétti til að mæta athugasemdum um að í nefndinni eigi að vera einhver með sérþekkingu á fjölmiðlum. Þá ákvörðun um að fela „þar til bærum aðilum“ umsýslu við endurgreiðslurnar, sem greiddar verða úr ríkissjóði, færð frá ráðherranum sjálfum til fjölmiðlanefndar.
Vilja að hlutfallið verði hækkað á ný
Þegar loks var mælt fyrir frumvarpinu í desember í fyrra var búið að lækka endurgreiðsluhlutfallið sem einkareknir fjölmiðlar gæta vænst að fá úr 25 prósentum í 18 prósent. Heimildir Kjarnans herma að það hafi verið gert að kröfu þingmanna úr þingflokki Sjálfstæðisflokks.
Samkeppniseftirlitið skilaði umfangsmikilli umsögn um frumvarpið þar sem það lagði meðal annars mikla áherslu á að meginmarkmið þess væri að styðja við fjölræði og fjölbreytni. „Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang,“ sagði í umsögn þess.
Eftirlitið gerði athugasemd við að endurgreiðsluhlutfallið hefði verið lækkað og sagði það vinna gegn smærri fjölmiðlum.
Í greinargerð mennta- og menningarmálaráðuneytisins er tillit tekið til þessara athugasemda og að lækkun á hlutfallinu í 18 prósent bitni „aðeins á þeim miðlum sem ekki ná 50 millj.kr. þakinu (þ.e. öllum nema miðlum Árvakurs, Sýnar og Torgs)“.
Þar segir enn fremur að í þessu sambandi mætti „einnig athuga hvort ástæða hafi verið til að lækka hlutfallstölumar sökum þess að í frumvarpinu er kveðið á um að endurgreiðslur gætu numið „allt að" tilteknu hlutfalli. Þá gæti einnig vegna fækkunar blaðamanna að undanförnu sú staða komið upp að samtals verði endurgreiðslu fjárhæðin lægri en sem ætluð em til þeirra.“
Enn áhersla á eflingu lýðræðislegrar umræðu
Ýmsir miðlar sem fjalla um afmörkuð málefni á einkasviði fólks, þá borð við lífsstíl, íþróttir, heilsu og fleira, hafa hingað til ekki uppfyllt skilyrði til endurgreiðslu, þar sem tilgangur hennar sé að efla lýðræðislega umræðu í landinu. Þar er til að mynda um að ræða miðla eins og Fotbolti.net og lífstílstímarit á borð við Hús og Híbýli. Engar breytingar verða þar á verði greinargerð ráðuneytisins grunnur að áliti allsherjar- og menntamálanefndar.
Undir lok greinargerðarinnar mælir ráðuneytið með því að sérstaklega verði tekið fram í nefndarálitinu að efni sem unnið er af gervigreind verði ekki styrkhæft. Þá leggur það til hugtakið „sjálfstæð fréttastofa“, hvernig meta skuli hlutfall ritstjórnarefnis og hvernig eigi að láta starfsmenn fjölmiðla sem vinni við gerði kynningarefnis falla utan endurgreiðsluhæfs kostnaðar verði nánar skýrt í reglugerð.
Kjarninn er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru fyrir stuðningsgreiðslum eins og frumvarpið er í dag, og mun áfram uppfylla þau miðað við breytingartillögur ráðuneytisins.