Stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk fordæmir yfirvofandi brottvísun á Maní, 17 ára trans drengs frá Íran, og fjölskyldu hans og skorar á íslensk stjórnvöld að tryggja honum skjól og vernd hér á landi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum í dag.
Mál hins 17 ára gamla trans drengs frá Íran, Maní, hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga en brottvísun hans og fjölskyldu hans var í gær frestað vegna annarlegs ástands drengsins. Hann var á sunnudaginn lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, í hvíldarinnlögn. Í frétt Vísis í dag kemur aftur á móti fram að honum og fjölskyldu hans verði vísað úr landi þegar hann útskrifast af Landspítalanum.
Upplifði hér frelsi og öryggi
Maní sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt foreldrum sínum. Fjölskyldan fékk vegabréfsáritun til Portúgals til þess að komast frá Íran en þar hafa þau ekki sótt um vernd. Í yfirlýsingu Solaris segir að íslensk yfirvöld noti stutt stopp þeirra í Portúgal á leið þeirra hingað til þess að fría sig allri ábyrgð og senda fjölskylduna aftur til Portúgals í nafni Dyflinnarreglugerðinnar. Þar bíði fjölskyldunnar ekkert annað en frekari flótti, óöryggi og óvissa.
Þá kemur fram að á Íslandi hafi Maní upplifað frelsi og öryggi og hér treysti hann sér til þess að kom út sem trans strákur. Maní óttist hins vegar um öryggi sitt og líf verði hann sendur aftur til Íran. Foreldrar Maní óttist mikið um velferð hans og fjölskyldunnar verði þau send frá Íslandi og aftur á flótta. „Maní er nú í hvíldarlögn á BUGL en ástand hans er gífurlega alvarlegt. Yfirvofandi brottvísun fylgir yfirleitt gríðarlega mikill kvíði, áhyggjur og ótti sem getur haft alvarlegar afleiðingar,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórn Solaris fordæmir meðferð íslenskra yfirvalda á Maní og fjölskyldu hans, „sem óhætt er að segja að sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Stjórn Solaris skorar á íslensk stjórnvöld að sýna mannúð og tryggja að Maní fá hér skjól og vernd. Það er það minnsta sem hægt er að gera eftir það sem á undan er gengið.“