Björgólfur Jóhannsson segir að hann muni hætta sem forstjóri Samherja fyrir lok marsmánaðar. Búast megi við því að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur í forstjórastólinn. Frá þessu greindi Björgólfur í hádegisfréttum RÚV.
Þar sagði Björgólfur að ljóst væri að hann hefði verið ráðinn tímabundið og að plan Samherja væri að rannsókn, þar sem fyrirtækið réð norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að framkvæma á viðskiptaháttum sínum, yrði komin á lokastig á þeim tíma. Aðspurður hvort að Þorsteinn Már myndi taka aftur við sem forstjóri sagði Björgólfur að reikna mætti með því en að það væri stjórn félagsins sem tæki þá ákvörðun. Þorsteinn Már er einn helsti eigandi Samherja ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Helgu S. Guðmundsdóttur og frænda sínum Kristjáni Vilhelmssyni. Stjórn Samherja situr í umboði eigenda fyrirtækisins.
Björgólfur tók við forstjórastarfinu eftir að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjöllun sína um viðskiptahætti Samherja í Namibíu og víðar þar sem fjallað var um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu. Hann tók þá við af Þorsteini Má en í umfjölluninni steig fram uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, sem sagði að öll ætluð mútubrot Samherja í landinu hefði verið framkvæmd með vitund og vilja forstjórans.
Vill aftur í stjórn Sjóvá
Kjarninn greindi frá því í morgun að Björgólfur sem hefur verið tímabundinn forstjóri Samherja frá því um miðjan nóvember í fyrra, sæktist eftir því að sitja áfram í stjórn tryggingafélagsins Sjóvá. Björgólfur var stjórnarformaður félagsins áður en hann tók við forstjórastarfinu hjá Samherja, en tilkynnti á stjórnarfundi 19. nóvember 2019 að hann myndi víkja tímabundið úr stjórninni „vegna anna.“
Í skýrslu tilnefninganefndar Sjóvá, sem birt var í gær, kemur fram að Björgólfur áætli að láta af störfum hjá Samherja fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2020, sem lýkur í lok mars næstkomandi.
Björgólfur var fyrst kjörinn í stjórn Sjóvá í mars í fyrra og tók samstundis við sem stjórnarformaður. Stærsti eigandi Sjóvá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar, með 13,97 prósent eignarhlut. Samherji á 44,6 prósent í Síldarvinnslunni auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Samanlagður eignarhlutur Samherja og tengdra aðila í Síldarvinnslunni er því 49,9 prósent og Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleiganda Samherja og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, var stjórnarformaður Síldarvinnslunnar um árabil.