Björgólfur Jóhannsson, sem hefur verið tímabundinn forstjóri Samherja frá því um miðjan nóvember í fyrra, sækist eftir því að sitja áfram í stjórn tryggingafélagsins Sjóvá. Björgólfur var stjórnarformaður félagsins áður en hann tók við forstjórastarfinu hjá Samherja, en tilkynnti á stjórnarfundi 19. nóvember 2019 að hann myndi víkja tímabundið úr stjórninni „vegna anna“.
Björgólfur var fyrst kjörinn í stjórn Sjóvá í mars í fyrra og tók samstundis við sem stjórnarformaður. Stærsti eigandi Sjóvá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar, með 13,97 prósent eignarhlut. Samherji á 44,6 prósent í Síldarvinnslunni auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Samanlagður eignarhlutur Samherja og tengdra aðila í Síldarvinnslunni er því 49,9 prósent og Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleiganda Samherja og fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, var stjórnarformaður Síldarvinnslunnar um árabil.
14 sóttust eftir stjórnarsetu
Aðalfundur Sjóvá fer fram 12. mars næstkomandi. Í skýrslu tilnefningarnefndar félagsins kemur fram að 14 framboð hafi borist til setu í aðalstjórn, en að fimm aðilar hafi dregið framboð sín til baka þegar fyrir lá að tilnefningarnefnd myndu ekki mæla með þeim. Því sækjast níu manns eftir fimm sætum í stjórninni. Þeirra á meðal eru, líkt og áður sagði, Björgólfur.
Tilnefningarnefndin mælir með því að hann verði kjörinn í stjórnina ásamt þeim Guðmundi Erni Gunnarssyni, fyrrverandi forstjóri VÍS, Hildi Árnadóttur, núverandi stjórnarformanni Sjóvár, Inga Jóhanni Guðmundssyni, stjórnarmanns og einn eiganda Síldarvinnslunnar og Ingunni Agnes Kro lögmanni.
Mun sitja lengur en búist var við
Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv sem birt var um miðjan desember í fyrra sagði Björgólfur að hann byggist við því að hann myndi ljúka hlutverki sínu sem tímabundinn forstjóri Samherja á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020.
Í viðtali við vefmiðilinn Intrafish, sem sérhæfir sig í umfjöllun um sjávarútvegsmál, sem birt var í janúar var hafði sá tími sem Björgólfur vænti þess að vera í starfi þó lengst. Þar sagðist hann ekki reikna með því að sitja í forstjórastólnum lengur en fram á mitt ár 2020. Þar útilokaði Björgólfur enn fremur ekki að Þorsteinn Már myndi snúa aftur í stólinn. „Hann hefur verið starfandi í sjávarútvegi á Íslandi í mörg ár og er líklega sá náungi sem veit mest um sjávarútveg á Íslandi og í Evrópu,“ sagði Björgólfur um Þorstein Má.
Í skýrslu tilnefninganefndar Sjóvá segir hins vegar að Björgólfur áætli að láta af störfum hjá Samherja fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2020, sem lýkur í lok mars næstkomandi.