Lögmenn Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sögðu fyrir dómi í London í gær að Donald Trump hefði boðist til að náða Assange gegn því að hann myndi segja að Rússland hefði ekki átt þátt í því að leka tölvupóstum Demókrataflokksins. Þessu hafnar fyrrverandi þingmaður repúblikana sem lögmennirnir sögðu lykilvitni í málinu.
Í næstu viku hefjast réttarhöld í London þar sem Assange berst gegn framsalskröfu frá bandarískum yfirvöldum sem gefið hafa út ákæru í átján liðum fyrir að birta stolin gögn.
Samkvæmt því sem lögmenn Assange segja kom þingmaðurinn Dana Rohrabacher til London í ágúst árið 2017. Á meðan heimsókninni stóð hitti hann Assange og bar honum þau skilaboð frá forsetanum að honum biðist náðun „eða aðra leið út“ ef Assange segði að Rússar „hefðu ekkert haft að gera með að leka“ á tölvupóstum Demókrataflokksins.
Í frétt Guardian um málið segir að nokkrum tímum eftir þessa yfirlýsingu lögmannanna hafi Rohrabacher neitað því að hafa boðið náðun fyrir hönd forsetans. Hann hafi hins vegar sagt Assange að ef að hann gæti veitt upplýsingar og sönnunargögn um hver hefði í raun og veru látið hann hafa tölvupóstana þá myndi hann óska eftir því að Trump myndi náða hann. „Á engum tímapunkti bauð ég samning fyrir hönd forsetans og ég sagði heldur ekki að ég væri [að hitta Assange] fyrir hönd forsetans,“ segir Rohrabacher.
Hvíta húsið hefur staðfest að í september árið 2017 hafi Rohrabacher hringt í John Kelly, starfsmannastjóra, til að tala við hann um mögulegt samkomulag við Assange. Kelly hafi hins vegar ekki komið þeim skilaboðum áleiðis til Trumps. Þessa atburðarás staðfestir Rohrabacher.
Hann segist hafa sagt honum að Assange myndi veita upplýsingar um tölvupóstana gegn náðun. Hann hafi hins vegar engin viðbrögð fengið. „Jafnvel þó að mér hafi ekki tekist að koma þessum skilaboðum til forsetans þá hvet ég hann ennþá til að náða Julian Assange sem er sannur uppljóstrari okkar tíma.“
Ákærum skellt á Assange
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, fjallar um fréttirnar á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. „Gott er hér að hafa í huga samhengið. Það er lagt fram boð frá Trump um að ef blaðamaður opinberi heimildarmann fái hann náðun eða milda meðferð. Þegar því er hafnað er sett vinna á fullt við að skella ákærum á Assange á grundvelli njósnalöggjafar og vinna að því að ná honum út úr sendiráði Ekvadors í járnum.“
Wikileaks birti tölvupósta Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda demókrata, árið 2016, aðeins nokkrum vikum fyrir kosningarnar.