Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir Samtök iðnaðarins og Samál standa í áróðursherferð gegn orkufyrirtækjum í almannaeigu samhliða því að eitt aðildarfyrirtæki þeirra, Río Tinto sem rekur álverið í Straumsvík, reynir að lækka það verð sem það greiðir fyrir raforku.
Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag segir Hörður að hluti af þessari áróðursherferð snúist um andstöðu gegn kerfi um upprunaábyrgðir raforku, sem mikið hefur verið fjallað um í fréttum undanfarið, sem Samtök iðnaðarins hafa farið fram á að sala upprunaábyrgðanna, sem skiluðu Landsvirkjun um einum milljarði króna í tekjur í fyrra, verði hætt.
Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur á borð við álver. Þeim hefur staðið til boða að semja um kaup á upprunaábyrgðunum en hafa valið að gera það ekki.
Hann spyr hvort það sé með samþykki meirihluta aðildarfyrirtækja samtakanna að þau beiti sér fyrir því að íslenska þjóðin gefi 20-30 milljarða, sem er áætlaður hagnaður af sölu upprunaábyrgða á næstu tíu árum,til nokkurra alþjóðlegra stórfyrirtækja?
Spyr Samtök iðnaðarins fimm spurninga
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í fréttum Stöðvar 2 nýverið að með sölunni sé verið að grafa undan samkeppnisforskoti Íslands þar sem í dag þurfi öll fyrirtæki á Íslandi sem noti mikla raforku að kaupa sér upprunavottorð vilji þau tiltaka að afurðir þeirra séu framleiddar með grænni orku.
Hörður segir í grein sinni að málflutningur samtakanna í þessu máli einkennist af ítrekuðum rangfærslum og setur í kjölfarið fram fimm spurningar sem hann vill að samtökin svari.
Í þeim spyr Hörður hvort að Samtök iðnaðarins geti nefnt dæmi um kolaorku- eða kjarnorkuver í Evrópu sem hafa getað nýtt sér íslenskar upprunaábyrgðir til þessa að bæta ímynd sína, hvort að Samtök iðnaðarins geti bent á einhvern skaða sem orðið hafi á ímynd Íslands vegna sölu upprunaábyrgða, hvort þau geti svarað því hvernig viðskipti með upprunaábyrgðir geti haft áhrif á kolefnishlutleysi Íslands, hvort samtökin telji að alþjóðleg stórfyrirtæki eigi að borga það sama fyrir græna þátt raforkunnar á Íslandi og þau greiða í öðrum löndum og hvort að það sé með samþykki meirihluta aðildarfyrirtækjanna að samtökin beiti sér fyrir því að íslenska þjóðin gefi nokkrum alþjóðlegum stóriðjufyrirtækjum 20-30 milljarða á næstu tíu árum?
Hörður segir að öll raforka sem sé framleidd á Íslandi sé endurnýjanleg og upprunaábyrgðir breyti þar engu um. „Ísland er og verður „land endurnýjanlegrar orku,“ óháð þátttöku í kerfinu og allir geta stoltir selt fisk og vörur frá landi endurnýjanlegrar orku. Þegar Ísland verður kolefnishlutlaust í framtíðinni bætist sú staðreynd við þá jákvæðu ímynd landsins.“
Frá því að Íslendingar byrjuðu að nýta raforku fyrir orkufrekan iðnað hafi vonir staðið til að endurnýjanlega orkan sem hér er framleidd hefði sérstök verðmæti sem einhver væri tilbúinn að greiða sérstaklega fyrir. „Það hefur nú loks raungerst. Verðmætin eru mikil, þó óvissu sé háð hversu mikil. Áætlanir benda til að þau gætu á næstu tíu árum numið 20-30 milljörðum. Vegna aukinnar vitundar um mikilvægi loftslagsmála um allan heim gæti þessi upphæð orðið mun hærri.“