Eyðimörkin Sahara, sem breiðir úr sér yfir stóran hluta Norður-Afríku, lét finna fyrir sér í tuga kílómetra fjarlægð um helgina. Sandur sem þaðan blés hafði mikil áhrif á loftgæði og samgöngur á Kanaríeyjum þar sem fjöldi Íslendinga dvelur á hverjum tíma í sólinni.
Flugferðum til og frá eyjunum var aflýst og einnig var ákveðið að slaufa mörgum viðburðum sem stóðu fyrir dyrum. Á morgun, mánudag, er búið að aflýsa skólahaldi á einhverjum eyjanna vegna veðursins. Sandbylurinn hefur takmarkað skyggni verulega.
En hvað er það sem veldur því að sandur úr Sahara ferðast
svo langa leið – yfir haf og lönd?
Sahara er stærsta eyðimörk heims utan heimskautasvæðanna. Hún nær yfir stóran hluta Norður-Afríku og er um 9,2 milljónir ferkílómetra, álíka stór og Bandaríkin. Sandurinn sem nú gerir usla á Kanarí er líklega ættaður frá Marokkó og Máritaníu, löndum í um 100 kílómetra fjarlægð á vesturströnd Afríku.
Þetta ástand er þekkt sem „calima“ og þeir sem dvalið hafa á Kanaríeyjum á þessum árstíma gætu hafa komist í kynni við það. Í ár virðist það þó óvenju slæmt.
Calima eru heitir og sterkir austan vindar sem rífa upp sand í stórum stíl, blása honum þúsundir metra upp í loftið, yfir Atlantshafið og í átt að Kanarí-eyjaklasanum. Er þetta heita loft fer yfir eyjarnar myndar það þykkt mistur smárra sandkorna sem getur hindrað sýn og valdið öndunarerfiðleikum.
Samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð var við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum stækkaði Sahara-eyðimörkin um 10% á árunum 1920-2013. Lítil úrkoma fellur í eyðimörkum, yfirleitt innan við 100 mm á ári að meðaltali.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar árið 2018 og
samkvæmt þeim er líklegt að stækkun Sahara komi til af þáttum sem rekja má bæði
til náttúrulegra fyrirbæra og athafna mannanna. bæði. Mikið magn
gróðurhúsalofttegunda ýti undir áhrif náttúrulega veðurfyrirbrigða með þeim
afleiðingum að uppblástur verður meiri og eyðimörkin stækkar.