Stefán Eiríksson, sem tekur við starfi útvarpsstjóra RÚV í næstu viku, sér tækifæri í að breyta og þróa þegar kemur að öllu því efni sem er framleitt hjá RÚV, og er til staðar í safni fyrirtækisins. „Ég vil að þetta sé opið og aðgengilegt öllum almenningi og öðrum fjölmiðlum til frjálsra nota. Í rauninni eru einu takmarkanir þá rétthafatakmarkanir sem tengjast þá samningum við listamenn og eitthvað slíkt. En svoleiðis opnun held ég að geti skipt mjög miklu máli. Þannig að miðill eins og til dæmis Kjarninn geti nýtt sé efni sem er aðgengilegt hjá RÚV og hafi í rauninni fulla heimild til að gera það.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í ítarlegu viðtali við Stefán sem birtist á Kjarnanum um liðna helgi.
Stefán viðurkennir að búa ekki persónulega yfir tæknilegu þekkingunni til að framkvæma þessa hugmynd né átta sig, eins og stendur, almennilega á umfangi þess að gera allt þetta efni aðgengilegt. Stefán er hins vegar sannfærður um að ríkið geti fundið leiðir til að sinna þessu hlutverki sínu með hagkvæmum hætti, að geyma og miðla efni. „Það er auðvitað gríðarlega mikið efni sem er verið að framleiða á vegum ríkisins. Ef þú horfir bara á lögregluna, þar sem að allar yfirheyrslur eru teknar upp og vistaðar á einhverjum ákveðnum stað og aðgengilegar fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla ef svo ber undir. Allt sem gerist inni hjá dómstólunum er tekið upp. Og ýmsir fleiri opinberir aðilar sem eru í þessu svo ég tali ekki um opinber söfn eins og Þjóðskjalasafnið, Borgarskjalasafnið, bókasöfnin í landinu og allt það.
Ríkisútvarpið er auðvitað að starfa í þágu allra landsmanna. Það efni sem þar hefur orðið til á að vera aðgengilegt öllum landsmönnum. Ég held að það væri rétt og eðlilegt að stiga það skref að aðrir fjölmiðlar geti nýtt sér þetta.