Ný skýrsla sem unnin var af Háskóla Íslands í samstarfi við öndvegisverkefnið Þverþjóðleiki og hreyfanleiki á Íslandi að beiðni félagsmálaráðuneytisins sýnir að líta þurfi til margra þátta þegar hugað sé að því hvar kreppi að varðandi stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.
Markmiðið með skýrslunni var meðal annars að kortleggja þá þekkingu sem liggur fyrir um stöðu kvenna af erlendum uppruna og afla eigindlegra gagna um helstu hindranir sem konur af erlendum uppruna upplifa í íslensku samfélagi. Skýrslan er hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna frásagna kvenna ef erlendum uppruna undir formerkjum #metoo. Skýrslan var kynnt í gær en hana unnu Unnur Dís Skaptadóttir og Kristín Loftsdóttir, prófessorar í mannfræði við HÍ.
Í skýrslunni kemur fram að um mjög fjölbreyttan hóp sé að ræða en skýrslan sýnir að huga þurfi betur að ákveðnum þáttum til að bæta stöðu kvenna af erlendum uppruna. Þær mæti ákveðnum hindrunum gegn því að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi, meðal annars varðandi það að læra íslensku og að fá menntun sína metna. Ólíkir hópar kvenna af erlendum uppruna verði fyrir fordómum og þær verði margar hverjar fyrir mismunun á ýmsum sviðum, svo sem á vinnumarkaði og á húsnæðismarkaði.
Vilja tilheyra íslensku samfélagi – erfitt að kynnast Íslendingum
„Ef aðgengi kvenna af erlendum uppruna að íslensku samfélagi og möguleikar þeirra á þátttöku eru skoðaðir sýna viðtölin og fyrri rannsóknir að konur og karlar af erlendum uppruna hafa haft áhuga á að tilheyra íslensku samfélagi og að taka virkan þátt í því. Þetta er í sláandi mótsögn við umræðu sem oft má sjá í samfélaginu um að fólk af erlendum uppruna vilji ekki taka þátt og „aðlagast“,“ segir í skýrslunni. Rýnihópaviðtölin og yfirlit rannsókna endurspegli að konur af erlendum uppruna hafi hins vegar oft haft lítinn aðgang að íslensku samfélagi og að erfitt hafi verið fyrir þær að kynnast innlendu fólki.
Þá kemur fram að rannsóknir sýni að þetta sé mikilvægur þáttur í því að geta orðið hluti af samfélaginu og í almennri vellíðan. Ákveðnir hópar kvenna af erlendum uppruna hafi til dæmis oft ekki haft tengslanet sem hefðu getað nýst þeim til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði og getað verið mikilvæg fyrri almenna valdeflingu og aðra þátttöku í íslensku samfélagi. Einnig hafi konur af erlendum uppruna sýnt áhuga á að læra íslensku en námskeiðin hafi verið misgóð og ekki alltaf aðgengileg.
Mismikil íslenskukunnátta hindrar þátttöku kvenna í samfélaginu
„Rannsóknir, sem ná yfir töluverðan tíma, sýna að ýmsar hindranir hafa verið gegn því að fólk læri íslensku. Þrátt fyrir að þekking hafi verið til staðar á því í hverju þessar hindranir felast virðast þær hafa haldið áfram, eins og sjá má af rýnihópaviðtölum og nýjustu rannsóknum í tengslum við aðgang fólks af erlendum uppruna að íslenskunámskeiðum og íslensku málumhverfi. Í rýnihópum kom jafnframt fram hvernig mismikil íslenskukunnátta hindraði oft þátttöku erlendra kvenna í íslensku samfélagi og þá sérstaklega á vinnumarkaði,“ segir í skýrslunni.
Einnig hafi margar konur af erlendum uppruna upplifað að þátttaka þeirra í íslensku samfélagi tæki oft mið af því að þær væru útlendingar eða innflytjendur, til dæmis varðandi margvíslega viðburði þar sem þeim hafi verið boðið fyrst og fremst á þeim forsendum.
Erfiðara að ná jafnvægi milli atvinnu og einkalífs
Konur af erlendum uppruna hafa að stærstum hluta flutt til Íslands vegna vinnu og verið virkar á íslenskum vinnumarkaði, eins og töluleg gögn skýrslunnar endurspegla vel, samkvæmt skýrsluhöfundum. Þær hafi tekið þátt í mjög kynskiptum vinnumarkaði og unnið langan vinnudag, oft í einhæfum störfum á lágum launum. Vísbendingar séu um að þær hafi frekar unnið í vaktavinnu en innlendar konur.
„Ljóst er af bæði fyrirliggjandi gögnum frá Hagstofu Íslands og nýlegum rannsóknum að þær hafa að jafnaði unnið störf sem eru ólík störfum innlendra kvenna, sem endurspeglar vinnumarkað sem er ekki bara kynjaður heldur einnig lagskiptur eftir uppruna. Töluleg gögn gefa einnig til kynna að heildarvinnutími kvenna af erlendum uppruna hafi verið lengri og átt sér stað á óhefðbundnari tímum en hjá innlendum konum. Út frá þessum niðurstöðum má álykta að erfiðara hafi verið að ná jafnvægi milli atvinnu og einkalífs hjá konum af erlendum uppruna en hjá innlendum konum,“ segir í skýrslunni.
Nýta síður menntun sína en karlar
Þá kemur jafnframt fram að konur af erlendum uppruna hafi síður nýtt menntun sína í störfum á Íslandi en karlar af erlendum uppruna og innlendir einstaklingar. Rannsóknirnar sem kynntar voru og umræður í rýnihópum hafi sýnt að jafnvel þær konur sem voru í störfum þar sem þær gátu nýtt sérþekkingu sína upplifðu oft neikvæð viðhorf sem höfðu meðal annars áhrif á framgang þeirra í starfi.
Það hve vinnutengdir flutningar hafa verið stór hluti flutninga fólks til Íslands og hin bága staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði undirstriki mikilvægi þess að yfirvöld og verkalýðsfélög hugi sérstaklega að stöðu þessara kvenna á vinnumarkaði. Í öllum þremur rýnihópunum kom fram að mat á námi hafi einnig verið stór þröskuldur í vegi fyrir þátttöku margra kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði.
Þarf að beina sjónum að kerfinu á Íslandi
Viðmælendur töluðu um að þær konur sem væru í verstri stöðu hefðu ekki menntun og töluðu hvorki ensku né íslensku. Bent var á að til að bæta úr þessu væri ekki nóg að beina sjónum að konunum sjálfum heldur að kerfinu á Íslandi og leita leiða til að breyta því til að koma til móts við þennan hóp. Einnig var bent á skort á fólki með innflytjendabakgrunn í ólíkum störfum sem fyrirmyndir fyrir yngra fólk.
Nefnt var mikilvægi þess að gefa erlendum konum fleiri tækifæri á vinnumarkaði og að það skorti ef til vill hugrekki hjá atvinnurekendum til að ráða konur af erlendum uppruna og gefa þeim tækifæri þrátt fyrir að þær töluðu með hreim.
Horfast þarf í augu við fordóma sem hluta af íslensku samfélagi
„Rannsóknir sem snúa að fordómum og niðurstöður viðtalshlutans varpa ljósi á það hversu varasamt getur þó verið að horfa eingöngu á áskoranir eða hindranir sem konur af erlendum uppruna mæta í samfélaginu. Fræðilegar rannsóknir hafa beint sjónum að fordómum sem viðgangast í íslensku samfélagi. Þær rannsóknir, svo og erlendar rannsóknir, sýna að oft eru til staðar staðalmyndir af konum af erlendum uppruna sem fórnarlömbum. Horfast þarf í augu við fordóma sem hluta af íslensku samfélagi og að þeir beinast að konum af erlendum uppruna og innflytjendum almennt,“ segir í skýrslunni
Mikilvægt að rannsaka nánar stöðu þeirra kvenna sem beittar eru kynbundnu ofbeldi
Enn fremur kemur fram að viðkvæm staða kvenna sem hafa komið frá löndum utan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins geti orsakast af því hve háðar þær hafa verið eiginmanni varðandi dvalarleyfi á Íslandi. Vegna tengslaleysis hafi þær oft og tíðum verið í erfiðri stöðu þegar um ofbeldi er að ræða af hendi eiginmanns. Rannsóknir sýni að þær hafa oft ekki verið kunnugar þeim úrræðum sem hafa staðið þeim til boða. Mikilvægt sé að rannsaka nánar stöðu þeirra kvenna sem beittar eru kynbundnu ofbeldi.
„Skýrslan sýnir að konur af erlendum uppruna hafa ekki aðeins orðið fyrir mismunun á vinnumarkaði heldur einnig varðandi aðgang að húsnæði. Nýleg rannsókn á stöðu innflytjenda á leigumarkaði og gögn Hagstofu Íslands varpa ljósi á jaðarstöðu margra kvenna af erlendum uppruna á húsnæðismarkaði. Gögnin sýna að nokkur hluti kvenna af erlendum uppruna hefur upplifað óöryggi í tengslum við búsetu, og gefa jafnframt vísbendingar um ófullnægjandi húsnæði og háan húsnæðiskostnað. Eigindlega rannsóknin sem sagt var frá endurspeglar að konur hafa mætt fjölþættum hindrunum á leigumarkaði og að margar þeirra hafa upplifað að aðgengi að upplýsingum hafi verið af skornum skammti.
Skýrslan sýnir að þó svo að unnið hafi verið að ýmsum verkefnum sem snúa að konum af erlendum uppruna sem verða fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi skortir nokkuð á rannsóknir á þessu sviði. Rannsóknir sem hafa verið gerðar benda til þess að veik staða ákveðins hóps kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði, vegna tengslaleysis og þess hve háðar sumar þeirra hafa verið eiginmanni, hafi getað ýtt undir veika stöðu þeirra gagnvart kynferðislegu áreiti (og ofbeldi),“ segir í skýrslunni.
Einnig sé ljóst að full ástæða er til að hafa áhyggjur af margþættu ofbeldi í garð ákveðinna hópa kvenna af erlendum uppruna þar sem taka þarf tillit til þeirra sérstaklega, meðal annars vegna vöntunar á tengslaneti.
Fjölga þarf jákvæðum fyrirmyndum og auka sýnileika
Í rýnihópum og viðtölum kom á margvíslegan hátt fram, samkvæmt skýrsluhöfundum, áhersla á fjölbreytileika kvenna af erlendum uppruna. Þær ættu í raun ekkert annað sameiginlegt en að vera af erlendum uppruna og því mikilvægt að taka tillit til fjölbreytileika og ólíkra þarfa og hagsmuna. Jafnframt hafi komið fram sú sýn að margbreytilegur styrkleiki kvenna af erlendum uppruna hefði ekki verið nægilega vel nýttur. Það væri ekki eingöngu slæmt þeirra vegna heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Því tengt hafi einnig verið talað um mikilvægi þess að ræða meira um styrkleika og atbeina kvenna af erlendum uppruna og einblína ekki eingöngu á vandamál. Fjölga þyrfti jákvæðum fyrirmyndum og auka sýnileika.
„Vegna þess hver fjölbreytilegur hópurinn var snúa niðurstöður skýrslunnar einmitt að því hversu erfitt er að alhæfa um þennan hóp. Yfirlit yfir stöðu þekkingar og viðtalshlutinn endurspegla þetta, sem undirstrikar mikilvægi þess að skilgreina til hvaða hópa er reynt að ná í ákveðinni stefnumótun og að í stefnumótun í ólíkum málaflokkum sé sérstaklega litið til áhrifa á konur af erlendum uppruna. Hér er mikilvægt að ítreka að konur af erlendum uppruna er regnhlífarheiti yfir konur sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að hafa flust til Íslands en vera fæddar í öðru landi. Þetta þýðir ekki að þær hafi enga sameiginlega reynslu en of mikil áhersla á sameiginlega þætti eykur hættuna á að sértækari þættir verði ósýnilegir, svo og fjölbreytni hópa innbyrðis, svo sem vegna trúar, ólíkrar innflytjendastöðu, kynhneigðar og aldurs,“ segir í skýrslunni.