Katrín Jakobsdóttir útilokar ekki að alþingiskosningar fari fram að vori 2021. Frá þessu greinir hún í samtali við Kjarnann. Hún bendir hins vegar á að kjörtímabilið sé til loka október 2021 og því sé eðlilegt að kjósa þá. Hún áréttar enn fremur að hún muni hlýða á sjónarmið forystumanna annarra flokka um málið.
Haustið 2021 mun núverandi ríkisstjórn hafa setið í fjögur ár. Rætt hefur verið um hvort að kosningum verði flýtt til vorsins þar sem hefð er fyrir þingkosningum þá. Samkvæmt lögum um stjórnskipan lýkur yfirstandandi kjörtímabili í lok október 2021.
„Kostar blóð, svita og tár að komast til valda“
Orð Bjarni Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtalið í Silfrinu á RÚV um síðustu helgi vöktu nokkra athygli. Hann sagði að engin niðurstaða væri komin varðandi hvenær kosningar verða ennþá. „Ef ég á að segja hug minn allan þá segi ég; það kostar blóð, svita og tár að komast til valda. Af hverju í ósköpunum ætti maður að gefa það frá sér hálfu ári áður en að lög segja til um?“
Til stendur að ræða við formenn allra flokka
Fram kom í fréttum í byrjun desember síðastliðins að Katrín myndi í vetur ræða við formenn allra flokka á Alþingi um það hvenær næstu þingkosningar fara fram.
Þórhilduar Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherrann hvort það lægi fyrir hvort kosningar yrðu haldnar á haustmánuðum 2021 eða hvort forsætisráðherra og ríkisstjórnin hyggðist halda alþingiskosningar á eðlilegum tíma á vormánuðum 2021.
Katrín taldi jafnframt að umræða um þessi mál í lok þingvetrar væru góður fyrirvari. Hún benti á að ekki stæði eingöngu til að ræða kosningalög heldur einnig breytingar á stjórnarskrá. Boðað yrði til fundar með formönnum flokka í lok þingvetrar til að ræða lok kjörtímabilsins.
Óttast sýndarsamráð
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í samtali við Kjarnann að ekkert samráð hafi enn verið haft við þau í flokknum. „Okkar viðhorf er að best væri að hafa kosningu að vori,“ segir hún og bendir á að október sé ekki góður tími fyrir kosningar vegna veðurs og annars. Hún segist samt sem áður skilja hvers vegna þessi ríkisstjórn vilji hafa kosningar að hausti, enda hafi fjármálaráðherrann talað skýrt og greinilega í viðtalinu um liðna helgi. „Hann sagði það hreint út að hann vildi halda völdum sem lengst.“
Hún segir að það sem hún hafi mestar áhyggjur af núna er að þetta samráð milli forsætisráðherra og formanna flokkanna, sem nú stendur til að hafa, verði sýndarsamráð en hún segist hafa upplifað það ítrekað á þessu kjörtímabili.
„Margt mælir með vorkosningum“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að honum finnist óheppilegt að hafa kosningar að hausti. Hann bendir þó á að auðvitað eigi sitjandi ríkisstjórn rétt á því að kosið verði haustið 2021.
„Margt mælir með vorkosningum,“ segir Logi og bendir á að þá hafi ný ríkisstjórn tækifæri til að leggja fram vönduð fjárlög. Hann nefnir jafnframt að Íslendingar búi á þannig landi að allra veðra sé von og að það sé ákveðið lýðræðismál að þingmenn geti nálgast sína kjósendur án þess að hafa áhyggjur af veðri.
Honum finnst merkilegt hversu mikið Bjarni leggi áherslu á að kosið verði að hausti. „Mig grunar að hann óttist að missa völdin. Mér finnst ekki skrítið að hann vilji hanga á stólnum sínum lengur,“ segir Logi.
Varðandi samráðið sem Katrín talaði um í desember þá segir Logi að ekkert slíkt hafi enn átt sér stað. Hann býst þó við að formenn flokkanna á þingi fái boð frá forsætisráðherranum og að víst hún orði það þannig þá hljóti hún að bjóða þeim að hafa einhverja skoðun á hvenær kosið verði.
Upplifir óeiningu innan ríkisstjórnarflokkanna
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir í samtali við Kjarnann að réttast sé að „koma kosningum á réttan stað“ – sérstaklega út frá fjárlögum, að ný ríkisstjórn hafi tíma til að vinna fjárlög svo þetta verði ekki, vegna tímaskorts, enn ein embættismannafjárlög. „Það er bæði ófaglegt og ólýðræðislegt að vinna fjárlög í svona mikilli tímaþröng. Einnig væri slæmt að hafa svona stutt á milli alþingis- og sveitastjórnarkosninga.“
Hún segist samt skilja það vel að ríkisstjórnin vilji kjósa um haustið vegna þess að hún sé ekki að ná sínum málum í gegnum þingið. „Ríkisstjórnin er ekki að ná sínum málum í gegnum þingið vegna óeiningar meðal ríkisstjórnarflokkanna. Þau samþykkja ekki mál hvors annars. Það er frekar sjálfhverft að ætla að fresta kosningum vegna þessa,“ segir hún. Því væri meiri tími kærkominn fyrir ríkisstjórnarflokkanna.
„Mér finnst einnig mjög furðulegt að Bjarni skuli koma fram í sjónvarpsviðtali, og segja það sem hann sagði, þegar búið er að tala um að eiga samráð seinna við formenn flokkanna,“ segir hún en Halldóra telur það ekki traustvekjandi að sjá fjármálaráðherra koma fram með þessum hætti. Hún staðfestir eins og aðrir sem Kjarninn talaði við í stjórnarandstöðunni að enn hafi ekkert samtal átt sér stað milli formanna flokkanna og forsætisráðherra um hvenær eigi að efna til kosninga.