Vaxandi líkur eru taldar á því að nýja kórónaveiran, COVID-19, eigi eftir að greinast hér á landi en „allra ráða er beitt til að hefta komu hennar,“ segir í skýrslu eftir stöðufund samhæfingarmiðstöðvar almannavarna sem haldinn var í morgun. Daglega bætast við lönd sem tilkynna um tilfelli, þar á meðal nokkur grannríki Íslands.
Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hefur nú rannsakað 38 sýni, meðal annars úr einkennalausum einstaklingum. Reyndust þau öll neikvæð. Þó að veiran geti fundist hjá einkennalausum einstaklingi þá er talið ólíklegt að þeir smiti aðra, þó það geti gerst í stöku tilfellum, segir í skýrslunni.
Í dag hefur sýking af völdum COVID-19 verið staðfest hjá um 82.132 manns og um 2.809 hafa látist (3,4%). Samkvæmt John Hopkins hafa 33.212 manns náð sér eftir veikindin.
Nýgreindum tilfellum innan Kína fer nú fækkandi en hins vegar er veiran að greinast í fleiri löndum og fer fjölgandi innan nokkurra landa einkum Ítalíu og Suður-Kóreu. Flestar sýkingar í Evrópu í dag má rekja til Ítalíu.
Á Íslandi er unnið samkvæmt óvissustigi, Landsáætlun- heimsfaraldur inflúensu. Ef svo ber undir má virkja Landsáætlun-sóttvarnir hafna og skipa, og Landsáætlun –alþjóðaflugvellir samhliða Landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu.
Í gær var tilkynnt um skilgreind áhættusvæði með mikla og litla smitáhættu og er það mat óbreytt. Svæði með mikla smitáhættu eru Kína, fjögur héruð á Norður Ítalíu (Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte), Suður-Kórea og Íran. Sóttvarnalæknir ráðleggur einstaklingum frá því að fara til þessara landa/svæða að nauðsynjalausu, en þeir sem koma hingað frá þessum stöðum er ráðlagt að fara í 14 daga sóttkví. Athugið að þeir sem fara um þessi svæði en dvelja ekki á þeim þurfa ekki að fara í sóttkví. Þannig þurfa þeir sem fljúga til eða frá þessum svæðum, eftir dvöl á skíðasvæðum utan þeirra, ekki að fara í sóttkví.
Áhættusvæði sem skilgreind hafa verið með litla smitáhættu eru önnur svæði á Ítalíu, Japan, Singapúr, Hong Kong og Tenerife (fyrir utan H10 Costa Adeje Palace hótelið). Ferðamenn sem eru nú þegar á þessum svæðum og þeir sem hafa nýlega komið þaðan eru beðnir um að huga vel að persónulegu hreinlæti og sýkingavörnum en ekki er talin nauðsyn á sérstakri sóttkví fyrir þá sem eru nýkomnir frá þessum svæðum. Einstaklingum sem koma frá svæðum með litla áhættu eru beðnir að láta vita í síma 1700 ef þeir veikjast innan 14 daga eftir brottför frá þessum svæðum.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur opnað sérstakan gagnagrunn fyrir Íslendinga erlendis sem óska eftir að vera á skráðir hjá utanríkisráðuneytinu og upplýstir um ferðaráð vegna COVID-19 veirunnar á meðan á dvöl þeirra stendur. Í morgun höfðu yfir eitt þúsund einstaklingar verið skráðir í grunninn.
Á Keflavíkurflugvelli, á Akureyri og á Seyðisfirði eru sendar upplýsingar til farþega um að tilkynna skuli veikindi í síma 1700 eða hringja í heilsugæsluna ef einstaklingar finna fyrir veikindum eftir að hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum. Á flugvöllunum hafa viðbragðsáætlanir verið uppfærðar og er virk vöktun í gangi.
Almennt hreinlæti mikilvægt
Í skýrslunni kemur fram að ferðamenn sem eru nú þegar á skilgreindum áhættusvæðum og þeir sem hafa nýlega komið þaðan séu beðnir um að huga vel að persónulegu hreinlæti og sýkingavörnum. Þær fela meðal annars í sér að þvo hendur oft og vel, hafa klút fyrir andlitinu við hnerra og hósta í olnbogabót og nota handspritt. Almenningur getur með auðveldum hætti dregið úr sýkingarhættu með því að gæta vel að persónulega hreinlæti. Handþvottur og almennt hreinlæti í kringum augu, nef og munn og það að forðast að heilsa með handabandi hefur lykilþýðingu við að forðast smit og fækka smitleiðum.“
Einstaklingar sem fá einkenni frá öndunarfærum, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.