Think about things í flutningi Daða og Gagnamagnsins verður framlag Íslands í Eurovision sem haldin verður í Rotterdam í Hollandi dagana 11. til 16. maí næstkomandi. „Við erum að fara í Eurovision,“ sagði Daði og endurtók á sviði þegar úrslit voru ljós.
Hatari, sigurvegari keppninnar í fyrra, og norska sveitin Keiino, sem hlaut flest símaatkvæði áhorfenda í Eurovision í fyrra, stigu á svið en kynnar voru Fannar Sveinsson, Benedikt Valsson og Björg Magnúsdóttir.
Athygli vakti þegar Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson stigu óvænt á svið í kvöld og sungu Eitt lag enn sem var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1990 sem haldin var í Zagreb. Hljómsveitin Stjórnin flutti lagið en það er eftir Hörð G. Ólafsson og textann gerði Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Lagið lenti í 4. sæti og fékk 124 stig, og var þetta besti árangur Íslands í keppninni fram til ársins 1999.
Dómnefnd hafði helmings vægi á móti símakosningu almennings í fyrri kosningu kvöldsins. Eftir þá kosningu fóru tvö efstu lögin í svokallað einvígi og þá réð símakosningin úrslitum en Daði & Gagnamagnið og Dimma komust áfram. Eins og í fyrra héldu lögin tvö þeim atkvæðum sem þau fengu í fyrri kosningunni frá dómnefnd og símakosningu áhorfenda.
Þau sem kepptust um að verða framlag Íslands í Eurovision árið 2020 voru:
- Daði og Gagnamagnið
- Íva
- Ísold og Helga
- Dimma
- Nína
Hér fyrir neðan má sjá myndband með laginu.