Ekkert hefur heyrst frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra varðandi boð Eflingar um að fresta verkfallsaðgerðum í tvo sólarhringa gegn því að Dagur veiti skriflega staðfestingu á kastljósstilboðinu svokölluðu. Erindi þess efnis var sent til borgarstjóra með afriti á ríkissáttasemjara í morgun.
Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, við Kjarnann. Hann segir að ríkissáttasemjari hafi staðfest móttöku erindisins en það hafi aðstoðarmaður borgarstjóra aftur á móti ekki gert.
Viðar segir að verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar í borginni haldi því áfram, sem og barátta þeirra. „Við teljum okkur vera að vinna þetta af alvöru og heilindum til að ná lendingu í málinu,“ segir hann og bætir því við að ákveðið „alvöruleysi“ sé í viðbrögðum borgarinnar. Þá eigi hann við að ekki fari saman yfirlýsingar borgarstjóra í fjölmiðlum og það sem boðið sé við samningaborðið. Hann segir þetta vera einstaka stöðu í kjaraviðræðum.
Framkvæmdastjórinn segir að félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hafi haldið frábæran fund fyrr í dag en á honum var samþykkt einróma eftirfarandi ályktun:
Við erum ófaglærðir starfsmenn Reykjavíkurborgar, í fjölbreyttum störfum við sorphirðu, viðhald, umönnun og menntun barna, aldraðra og fatlaðra, þrif, eldamennsku og fleira.
Við sinnum grunnþjónustu sem borgarbúar geta ekki lifað án. Þetta hafa verkfallsaðgerðirnar okkar sýnt.
Við erum með lægstu heildarlaun allra á íslenskum vinnumarkaði.
Með því að ganga í störf faglærðra spörum við Reykjavíkurborg árlega um milljarð á ári, eingöngu í leikskólakerfinu.
Við krefjumst þess að borgarstjórnarmeirihlutinn og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri standi við orð sín um að leiðrétta kjör láglaunafólks og sögulega vanmetinna kvennastétta.
Samninganefnd okkar hefur hvað eftir annað lagt fram vel útfærðar og skynsamlegar tillögur um hvernig eigi að framkvæma þetta. Það er með öllu óskiljanlegt hvers vegna borgin hafnar þeim tillögum hverjum á fætur annarri.
Við höfnum þeim leik borgarinnar að borgarstjóri fari með fagurgala í fjölmiðlum en að samninganefnd borgarinnar bjóði svo samninganefnd Eflingarfélaga lausnir sem einungis taka til brots okkar félagsmanna og með kvöðum og skilyrðum.
Það er kominn tími fyrir borgina að sýna að henni sé alvara.
Á borðinu liggur tillaga að samkomulagi sem er í samræmi við yfirlýsingar borgarstjóra sjálfs. Við styðjum samninganefnd Eflingar í því að bjóða að fresta verkfalli í tvo sólarhringa gegn því að samkomulagið verði undirritað.
Við stöndum saman og styðjum samninganefndin okkar alla leið.
Borgin er í okkar höndum!