Ekki er talið að við núverandi óvissuástand vegna COVID-19 sé tímabært eða skynsamlegt að ráðast í markaðsherferð á „ferðamannalandinu Íslandi.“ Þetta kemur fram í svari frá aðstoðarmanni Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Kjarnans en á dagskrá ríkisstjórnarinnar í dag var fjallað um undirbúning markaðsaðgerða í kjölfar COVID-19.
Þannig hafi bæði Finnland og Austurríki nýlega afturkallað nýhafnar markaðsherferðir sínar, vegna stöðunnar sem er uppi. Því hafi verið beint til Íslandsstofu að endurmeta áform sín um markaðsaðgerðir sem þegar hafi verið ákveðnar.
Málið þegar farið að hafa áhrif á ferðaþjónustu
Samkvæmt svarinu fundaði stjórnstöð ferðamála um málið í gær. Þar hafi komið fram að málið sé þegar byrjað að hafa áhrif á íslenska ferðaþjónustu og vinna standi yfir við að meta hver þau gætu orðið til lengri tíma.
„Hins vegar er jafnframt ljóst að á einhverjum tímapunkti fara neytendur í auknum mæli að bóka ferðalög á nýjan leik. Þá verður Ísland að öllum líkindum í harðri samkeppni við önnur lönd sem einnig hafa orðið fyrir samdrætti í ferðaþjónustu vegna veirunnar,“ segir í svarinu.
Þess vegna sé það samdóma álit þeirra sem fundað hafa um málið á vettvangi stjórnstöðvar ferðamála að skynsamlegt sé að hefja nú þegar „undirbúning að alþjóðlegu markaðsátaki sem mætti ýta úr vör um leið og aðstæður skapast til að hvetja ferðamenn á ný til þess að sækja Ísland heim, og nýta þann glugga sem skapast til að draga eins og kostur er úr þeim búsifjum sem málið mun valda íslenskri ferðaþjónustu og efnahagslífi.“
Aukið framlag frá ríki og ferðaþjónustufyrirtækjum
Til slíks átaks muni þurfa framlög úr ríkissjóði auk framlags frá ferðaþjónustufyrirtækjum sem gert er ráð fyrir að verði króna á móti krónu.
Þegar er byrjað að leggja drög að ramma utan um þessa vinnu og ráðherra ferðamála væntir þess að hún geti hafist formlega innan fárra daga, segir í svarinu.