Uppfært: Þessi frétt var uppfærð með tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga 16. mars.
Tugir tilfella af nýju kórónuveirunni hafa verið greind hér á landi og í nokkrum landshlutum. Hér að neðan er að finna svör við algengum spurningum vegna veirunnar, útbreiðslu hennar og varúðarráðstöfunum.
Hvað er kórónuveira?
Kórónuveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum. Þær eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða.
Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?
Orsök núverandi faraldurs er ný tegund kórónuveiru sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Veiran var fyrst nefnt 2019-nCoV en vegna mikils skyldleika við SARS-veiruna hefur hún nú hlotið nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn kallast nú COVID-19.
Hvernig hagar þessi veira sér samanborið við aðrar kórónuveirur?
Nýja veiran er ekki eins skæð og SARS- eða MERS-kórónuveirurnar sem höfðu 10% og 35% dánartíðni, en virðist mun meira smitandi. Þær veirur voru minna smitandi en inflúensa en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og sjúkrahúsum og dánartíðni vegna sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu.
Hvaðan kemur veiran?
Uppruni veirunnar virðist hafa verið í Wuhan-borg í Kína og tengd ákveðnum matarmarkaði sem verslaði með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega með annan óþekktan, millihýsil áður en smit barst í menn og loks manna á milli.
Er til bóluefni gegn nýju kórónuveirunni?
Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og því ekki hægt að bólusetja.
Hver eru einkennin?
Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. COVID-19 getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4.–8. degi veikinda.
Hverjir eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni?
Líkur á alvarlegum sjúkdómi hækka með hækkandi aldri, sérstaklega eftir 50 ára aldur. Einstaklingar með ákveðin undirliggjandi vandamál eru einnig í aukinni hættu á alvarlegri sýkingu ef þeir smitast af COVID-19 sjúkdómi. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið aukin hættan er ef þessi vandamál eru til staðar, en þegar borin eru saman væg og alvarleg tilfelli er greinilegt að ákveðin vandamál voru til staðar hjá mun fleirum með alvarlegan sjúkdóm en vægan sjúkdóm. Þessi vandamál eru: hár blóðþrýstingur/hjartasjúkdómar, sykursýki, langvinn lungnateppa, langvinn nýrnabilun og krabbamein.
Einstaklingar sem reykja virðast vera í aukinni hættu á alvarlegum sjúkdómi en ekki er hægt að útiloka að þar sé í raun langvinn lungnateppa undirliggjandi vandamál sem eykur alvarleika sjúkdómsins.
Á þessari stundu er óvíst hvort ónæmisbælandi meðferð (s.s. sterar, methotrexate eða líftæknilyf) eykur líkur á alvarlegri kórónaveirusýkingu.
Eru karlar líklegri en konur til að smitast?
Rannsóknir frá Kína benda til þess að fleiri karlar en konur þar í landi hafi veikst vegna veirunnar. Það virðist þó eiga sér þær skýringar að þar í landi reykja mun fleiri karlar en konur og reykingafólk er viðkvæmara fyrir sýkingum en annað.
Eru barnshafandi konur í sérstakri áhættu?
Engar upplýsingar hafa borist um sérstaka hættu fyrir barnshafandi konur eða hættu á fylgikvillum meðgöngu vegna COVID-19.
Hvaða meðferð er í boði?
Engin sértæk meðferð er þekkt við sjúkdómnum. Meðferð beinist því enn sem komið er að því að sinna grunnþörfum og einkennum eftir ástandi sjúklings.
Hvað er vitað um smit manna á milli?
COVID-19 smitast á milli einstaklinga. Smitleið er talin vera snerti- og dropasmit, svipað og inflúensa. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og hraustur einstaklingur andar að sér dropum/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti sínu.
Eru ferðatakmarkanir til Íslands?
Nei, engar ferðatakmarkanir eru á ferðalögum til Íslands. En íslensk yfirvöld vara við ferðalögum til áhættusvæða.
Er munur á sóttkví og einangrun?
Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki ennþá veikur. Einangrun á við sjúklinga með einkenni sjúkdóms. Hvort sem um sóttkví eða einangrun er að ræða þarf að takmarka umgengni við annað fólk.
Allir sem staddir eru hér á landi en þurfa að vera í sóttkví eða einangrun í heimahúsi geta haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins í símanúmerinu 1717 eða á netspjalli á www.1717.is. Þar er hægt að óska eftir aðstoð, leita stuðnings, fá upplýsingar og ræða við einhvern í trúnaði.
Hjálparsíminn er opinn allan sólarhringinn og númerið er gjaldfrjálst.
Hvernig á að bregðast við ef grunur um smit vaknar?
Hafðu samband við læknavaktina í síma 1700. Ekki fara beint á sjúklingamóttöku, heldur hringja fyrst og fá leiðbeiningar.
Eindregið er óskað eftir að þeir sem leita upplýsinga í tengslum við COVID-19 nýti sér upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis, fremur en að hringja í embættið.
Þurfa ferðamenn sem hingað koma að fara í sóttkví?
Ferðamenn sem koma til Íslands þurfa almennt ekki að fara í sóttkví. Talið er að þeir séu ólíklegri að vera í nánu samneyti við marga einstaklinga meðan á dvölinni stendur. Smithætta hjá ferðamönnum er því talin mun minni en frá Íslendingum og erlendum ríkisborgurum með fasta búsetu á Íslandi.
Stendur til að loka landinu fyrir ferðamönnum?
Sóttvarnalæknir, almannavarnir og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að ekki sé ástæða til að loka landinu. Mögulegt er að smit berist hingað með ferðamönnum en reynsla annarra Evrópulanda hefur sýnt að mesta smithættan er frá einstaklingum með náin tengsl við íbúa landsins.
Af hverju er ekki skimun fyrir kórónuveirunni á flugvellinum hér?
Ekki er hægt að leita að veirunni hjá einkennalausum ferðalöngum þar sem hún finnst ekki í vessum fyrr en einkenni koma fram. Hitamælingar og spurningalistar til farþega frá sýktum svæðum hafa verið notaðir í fyrri faröldrum með litlum sem engum árangri. Sóttkví þeirra sem hafa verið á áhættusvæðum og leit að veirunni ef einkenni koma fram er mun vænlegri til árangurs.
Hvað get ég gert til að forðast smit?
Góð handhreinsun er mikilvægasta og einfaldasta ráðið. Handþvottur með heitu vatni og sápu í um 20 sekúndur er æskilegastur ef hendur eru óhreinar. Ágæt tímaviðmiðun er að syngja afmælissönginn á meðan hendur er þvegnar.
Hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum, má hreinsa með handspritti.
Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta.
Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila.
Getur fólk smitast við að opna vörusendingar frá áhættusvæði?
Nei.
Á fólk sem á bókaða ferð til útlanda að hætta við að fara?
Sóttvarnalæknir ræður gegn öllum ónauðsynlegum ferðum á há-áhættusvæði. Ekki er hægt að spá fyrir um þróun mála á öðrum svæðum og verða einstaklingar sjálfir að taka ákvörðun eftir því sem þeirra eigið heilsufar eða aðrir þættir gefa tilefni til. Einstaklingar með áhættuþætti fyrir alvarlegum öndunarfærasýkingum ættu að hafa samráð við sinn lækni hvað þetta varðar.