Á síðustu árum hefur sú þróun orðið að stjórnmálasamtök hafa nýtt samfélagsmiðla til að beina skilaboðum til kjósenda í aðdraganda kosninga. Er þar um nýja aðferð við vinnslu persónuupplýsinga að ræða þar sem telja má mikilvægt að mótuð séu viðmið til að tryggja gagnsæi gagnvart hinum skráðu og fullnægjandi vernd upplýsinganna.
Þetta kemur fram í áliti sem Persónuvernd hefur birt og er niðurstaða í frumkvæðisathugunarmáli stofnunarinnar á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis í október 2016 og október 2017 til þess að afmarka markhópa og beina markaðssetningu að þeim.
Meginmarkmið álitsins, samkvæmt Persónuvernd, er að gefa leiðbeiningar og gera tillögur þar að lútandi með hliðsjón af því sem fyrir liggur um hvernig umrædd vinnsla hefur farið fram á vegum hérlendra stjórnmálasamtaka.
Samfélagsmiðlarnir Facebook, Instagram, Google og Youtube notaðir í auglýsingar
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Persónuvernd hefur undir höndum notuðu allir þeir flokkar sem buðu fram til Alþingis í október 2016 og 2017 persónuupplýsingar til að ná til skilgreindra hópa á samfélagsmiðlum.
Allir flokkarnir, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, notuðu Facebook til að ná til ákveðinna hópa og þar af leiðandi kjósenda fyrir kosningar. Jafnframt notuðu sumir flokkar Instagram, Google og Youtube til að ná til kjósenda.
Tilkoma samfélagsmiðla hafa skapað nýjar hættur gagnvart persónuvernd
Þá kemur fram í álitinu að góð kosningaþátttaka sé eftirsóknarverð í hverju lýðræðisríki. „Því er af hinu góða að hvetja kjósendur til að nýta sér kosningarrétt sinn. Hins vegar hefur tilkoma samfélagsmiðla skapað nýjar hættur gagnvart persónuvernd vegna nýrra aðferða við vinnslu stjórnmálasamtaka á persónuupplýsingum í því skyni að koma áherslum sínum til kjósenda. Tækniþróunin síðastliðinn áratug hefur verið gífurlega hröð og meðal annars leitt til þess að kjósendur eru ekki meðvitaðir um að persónuupplýsingar þeirra eru notaðar til að ná til þeirra með pólitískum skilaboðum.“
Persónuvernd bendir á að Evrópska persónuverndarráðið, sem stofnunini á aðild að, hafi látið sig þessi mál varða, en í því sambandi fjallar stofnunin um álit ráðsins um notkun persónuupplýsinga til þess að hafa áhrif á einstaklinga á Netinu.
Netið býr til afmörkuð samfélög manna
Niðurstaða álits Evrópska persónuverndarráðsins felur meðal annars í sér að slík skýring á Netinu ógni samfélögum nútímans þar sem Netið búi til afmörkuð samfélög manna og einstaklingar fái ekki jafnan aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þar er að finna.
Það leiði svo til þess að einstaklingar eigi erfiðara með að deila reynslu sinni og skilja hver annan. Allt þetta geti grafið undan lýðræðinu sem og öðrum grundvallarréttindum og frelsi manna. Rót vandans sé meðal annars óábyrg, ólögleg og siðferðislega röng notkun á persónuupplýsingum. Gagnsæi sé nauðsynlegt en ekki nóg og mikilvægt sé að beita persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins til hins ýtrasta samhliða almennum reglum um kosningar og fjölbreytni og frelsi fjölmiðla.
Stjórnmálaöfl í Bretlandi nota háþróaða greiningartækni til að ná til einstakra kjósenda
Þá bendir Persónuvernd jafnframt á að í skýrslu bresku persónuverndarstofnunarinnar, sem gefin var út þann 11. júlí 2018, Democracy disrupted? - Personal information and political influence, komi auk þess fram að stjórnmálasamtök og stjórnmálaöfl í Bretlandi og víðar hafi notað persónuupplýsingar og háþróaða greiningartækni til að ná til einstakra kjósenda í því skyni að fá þá til að kjósa á ákveðinn hátt.
Um sé að ræða gerð persónusniða um kjósendur almennt, til að mynda á grundvelli notkunar þeirra á samfélagsmiðlum, og notkun þessara persónusniða til að sérsníða skilaboð að einstökum kjósendum.
Enn fremur nefnir Persónuvernd að á fundi Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel þann 25. september 2018 hafi dómsmálaráðherra Evrópusambandsins kynnt aðgerðir til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar, bæði vegna væntanlegra kosninga til Evrópuþingsins á árinu 2019 og einnig vegna þá fyrirhugaðra þingkosninga í að minnsta kosti 13 þjóðríkjum sambandsins.
Hætta á að grafið verði undan trúverðugleika og lögmæti kosninga
Aðgerðir sambandsins á þessum vettvangi hafi verið settar fram í ljósi mála sem hafa komið upp í ríkjum Evrópu á undanförnum árum, meðal annars misnotkunar fyrirtækisins Cambridge Analytica á persónuupplýsingum í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) árið 2016.
„Í þessum málum hefur komið í ljós að mikil hætta er fyrir hendi á því að herjað verði á borgara í Evrópuríkjum, aðallega á samfélagsmiðlum, með þeim hætti að flókin algrím séu notuð til þess að beina röngum, villandi og persónusniðnum upplýsingum að einstaklingum án þeirra vitundar. Getur afleiðingin orðið sú að grafið sé undan trúverðugleika og lögmæti kosninga, auk þess sem þannig er reynt að hafa bein áhrif á niðurstöður þeirra,“ segir í áliti Persónuverndar.
Sömu sjónarmið eiga við hér á landi – og jafnvel enn frekar
Samkvæmt Persónuvernd eiga sömu sjónarmið við á Íslandi. Þá telur stofnunin að jafnvel megi færa fyrir því rök að þau eigi enn frekar við hér en annars staðar í Evrópu í ljósi þeirrar umfangsmiklu og einsleitu notkunar samfélagsmiðla sem hér viðgangist.
„Sú staðreynd að rúmlega níu af hverjum tíu fullorðnum einstaklingum á Íslandi nota sama samfélagsmiðilinn gerir úrvinnslu upplýsinga úr þjóðfélagsumræðu auðveldari en ella fyrir þá sem búa yfir tæknilegri þekkingu til þess og skapar kjöraðstæður fyrir ólögmæta vinnslu persónuupplýsinga,“ segir í álitinu.
Krafa til stjórnmálasamtaka að þau umgangist tækni samfélagsmiðlanna af ábyrgð
Í því upplýsingaumhverfi sem nú ríkir séu margir, ekki hvað síst ungt fólk, sem ekki lesa prentmiðla og sækja í reynd allar sínar upplýsingar um og fréttir af því sem fram fer í samfélaginu á vettvang samfélagsmiðla. Mikilvægt sé að samfélagið og stofnanir þess geri þá kröfu til stjórnmálasamtaka að þau umgangist þá tækni sem samfélagsmiðlar bjóða upp á af ábyrgð. Séu persónuupplýsingar notaðar á samfélagsmiðlum í samræmi við persónuverndarlög ættu þeir að geta gegnt uppbyggilegu og góðu hlutverki við miðlun upplýsinga og ættu sem slíkir að geta ýtt undir lýðræðislega þátttöku og bætt getu kjósenda til að geta tekið ákvarðanir á grundvelli réttra upplýsinga.
Til þess að svo megi verða þurfi eftirlitsstofnanir að gegna hlutverki sínu á skilvirkan hátt og tryggja að lögunum sé fylgt. Þannig verndi þær ekki einungis stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs heldur einnig lýðræðislegar stoðir íslensks samfélags.