Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að í baráttunni gegn COVID-19 skipti rétta hugarfarið öllu. Eingöngu með órjúfanlegri samstöðu muni okkur takast að lágmarka skaðann af þessum faraldri. „Augljóst er að við getum bjargað mannslífum með einföldum aðgerðum: að nota handspritt, hætta alfarið handabandi og fara að fyrirmælum um sóttkví. Stöndum öll saman um þetta.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann hefur birt á Facebook.
Þar segir Bjarni enn fremur að dæmi frá öðrum löndum sýni að samstaða geti skipt sköpum við að hefta útbreiðslu veirunnar. „Við erum að fást við bráðsmitandi veiru sem getur verið lífshættuleg einstaklingum sem undirliggjandi sjúkdóma. Bóluefni er ekki á næsta leiti og nú þurfum við að treysta á ábyrga hegðun hvers annars til að hlífa þeim sem eru í mestri hættu.“
Í baráttunni gegn COVID-19 skiptir rétta hugarfarið öllu. Það er eingöngu með órjúfanlegri samstöðu sem okkur mun takast...
Posted by Bjarni Benediktsson on Sunday, March 8, 2020
Ráðherrann segir að allt stjórnkerfi Íslendinga hafi verið virkjað vegna útbreiðslu kórónuveirusmita. „Okkar lykilfólk í heilbrigðiskerfinu og á sviði almannavarna hefur staðið sig frábærlega við mjög krefjandi aðstæður en það þarf samstöðu allra til að ná árangri.“
50 smitaðir í gær, þar af sjö sem smituðust innanlands
Í greindust fimm ný smit af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómi. Þrjú þeirra voru innlend og má rekja þau til einstaklinga sem voru á hættusvæðum erlendis. Hin tilfellin eru bæði rakin til ferðalaga á skilgreindum hættusvæðum.
Ríkislögreglustjóri lýsti á föstudag yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveirunnar eftir að fyrstu smit innanlands voru staðfest. Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig, sem varað hefur frá 28. febrúar.. Ekki hefur verið lagt á samkomubann en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á föstudag að óumflýjanlegt yrði að setja takmarkanir á mannamót.