Brúðkaupum og jarðarförum hefur verið frestað. Sömuleiðis trúarlegum samkomum og menningarviðburðum. Kvikmyndahús eru lokuð sem og næturklúbbar, líkamsræktarstöðvar, sundlaugar og skíðasvæði. Veitinga- og kaffihús mega hafa opið milli 6 að morgni og 18 að kvöldi en gestir verða að sitja í að minnsta kosti eins metra fjarlægð frá hver öðrum.
Stjórnvöld á Ítalíu hafa sett allt að sextán milljónir manna í sóttkví til að reyna að hefta útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem veldur COVID-19. Fólk er beðið að vera sem mest heima hjá sér og þeir sem fylgja ekki sóttvarnarreglunum geta átt allt að þriggja mánaða fangelsisdóm yfir höfði sér.
Ströngustu aðgerðirnar ná til fimmtán héraða í norðurhluta landsins. Innan þess svæðis eru bæði Feneyjar og Mílanó. Skólar, söfn og aðrir samkomustaðir eru hins vegar lokaðir í öllu landinu. Þær aðgerðir gilda til að minnsta kosti 3. apríl.
Tæplega 6.000 tilfelli kórónuveirunnar hafa verið staðfest í landinu og yfir 230 manns hafa látist vegna sýkingarinnar. Ítalía sker sig verulega úr hvað varðar útbreiðsluna í Evrópu.
„Við viljum tryggja heilsu borgaranna. Við skiljum að þessar aðgerðir kalla á fórnir, stundum litlar en stundum mjög stórar,“ sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, í morgun. „Runnin er upp sú stund sem við verðum að taka ábyrgð á okkur sjálfum.“
Ítölsk stjórnvöld höfðu tilkynnti í síðustu viku að öllum skólum yrði lokað í tíu daga. Til fleiri strangra aðgerða var gripið. Vonast var til að með þessu yrði hægt að hefta útbreiðsluna en nú virðist ljóst að það varð ekki raunin. Fjöldi smitaðra hefur haldið áfram að vaxa hratt og sömuleiðis dauðsföll af völdum veirunnar.
Því ákváðu stjórnvöld nú um helgina að grípa til hertari ráðstafanna. Fólk er beðið um að ferðast ekki að nauðsynjalausu um og út úr hinum fimmtán héruðum og lögreglan hefur heimildir til að stöðva fólk og spyrja hvert för þess sé heitið og af hverju.
Of seint?
Forsætisráðherrann sagði í morgun að fólk ætti ekki að ferðast um þessi skilgreindu hættusvæði eða frá þeim nema að brýna nauðsyn bæri til. „Við stöndum frammi fyrir neyð. Við verðum að takmarka útbreiðslu veirunnar og koma í veg fyrir að sjúkrahúsin okkar verði yfirfull.“
Spurningin er hins vegar hvort að þessar aðgerðir komi of seint til sögunnar. Talið er að veiran hafi búið um sig í ítölsku samfélagi í margar vikur áður en að það uppgötvaðist. Nú hefur hún greinst í 22 héruðum landsins.
Um 106 þúsund manns víðsvegar um heiminn hafa greinst með veiruna. Af þeim hafa tæplega 3.600 látist. Langflest tilfellin hafa greinst í Kína þar sem veiran er upprunnin. Ástandið er einnig slæmt í Íran og Suður-Kóreu þar sem yfir 7.000 eru smitaðir.
Ekki hafa færri tilfelli greinst í Kína í dag frá því í janúar. 27 dauðsföll vegna veirunnar hafa verið staðfest í landinu nú um helgina, öll í Wuhan-borg þar sem veiran greindist fyrst í desember.
Neyðarstigi lýst yfir á Íslandi
Fimmtíu smit hafa greinst hér á landi. Langflestir hinna smituðu voru að koma frá Ítalíu og Austurríki en nokkrir hafa smitast innanlands. Yfir 400 manns eru í sóttkví.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna COVID-19. Fyrstu smit innanlands voru staðfest fyrir helgi. Í kjölfarið var ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands.
Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 28. febrúar. Ekki hefur verið lagt á samkomubann en forsvarsmenn almannavarna hafa sagt að slíkar aðgerðir séu óumflýjanlegar.
Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða og því hafa ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveður á um þegar verið gerðar. Þar má nefna áætlanir um vöktun og farsóttagreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum sé beitt.
Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.