Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að eftir að hafa sest niður með Vísindasiðanefnd þá hafi komið í ljós að skimun fyrir kórónaveirunni væri ekki leyfisskyld aðgerð. Íslensk erfðagreining mun því framkvæma skimanir fyrir kórónuveirunni og jafnframt gera rannsóknir á mögulegum stökkbreytingum veirunnar. Þetta kemur fram í samtali Kára við mbl.is.
Þar segist Kári ætla að éta ofan í sig fyrri orð sín um að ákvörðun hans að hætta við skimanir fyrir kórónuveirunni sé endanleg. „Og það er skal ég segja þér, ekki uppáhalds sunnudagsmaturinn minn, að éta orðin mín.“ Nú sé ekkert annað að gera en að „keyra þetta í gang. Kári vonast til að skimanir geti hafist um miðja næstu viku.
Vísindasiðanefnd og Persónuvernd sögðu fyrr í dag í sameiginlegri yfirlýsingu að sú skimun sem Íslensk erfðagreining ætlaði að skima fyrir sé „hvorki leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd né Persónuvernd og getur því farið fram án aðkomu þessara aðila.“
Kári Stefánsson hafði áður sagt að hann væri hættur við að skima eftir veirunni vegna aðfinnslna Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er ætlun fyrirtækisins að skima fyrir Covid19-veirunni og skoða veiruna nánar. Slík skimun og veirurannsókn er hvorki leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd né Persónuvernd og getur því farið fram án aðkomu þessara aðila.“