Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að hún, landlæknir og sóttvarnarlæknir séu sammála um að tilboð Íslenskrar erfðagreiningar um að skima fyrir nýju kórónuveirunni meðal almennings, við þær fordæmalausu aðstæður séu uppi, sé mikilvægt framlag til lýðheilsu og sóttvarna. „Við viljum leggja okkar af mörkum til að af framlagi ÍE geti orðið og trúum því að það geti gerst hratt.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Svandísar á Facebook.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í gær að ekkert yrði af því að fyrirtækið skimi fyrir nýju kórónuveirunni meðal almennings en Alma Möller landlæknir hafði grein frá því á blaðamannafundi á föstudag að Kári hefði boðið fram aðstoð sína og fyrirtækisins. Sagði hún að eftir ætti að útfæra málið.
„Það er illvígur veirufaraldur að ganga yfir landið. Það var okkar mat og annarra að það væri mikilvægt að geta fylgst með útbreiðslu veirunnar og því hvernig hún stökkbreytist þegar hún ferðast milli fólks,“ skrifaði Kári á Facebook-síðu sína í gær.
„Við buðumst til þess að hlaupa undir bagga með heilbrigðiskerfinu og skima fyrir veirunni og raðgreina hana þar sem hún finnst þannig að það væri vitað hvar hún er og í hvaða formi. Það leit út fyrir að boð okkar væri þegið. Nú kemur í ljós að Vísindasiðanefnd/Persónuvernd líta svo á að þessi tilraun okkar til þess að taka þátt í aðgerðum heilbrigðiskerfisins beri að líta á sem vísindarannsókn og við yrðum að sækja um leyfi til þeirra.
Það munum við ekki gera vegna þess að af okkar hálfu átti þetta að vera þátttaka í klínískri vinnu en ekki vísindarannsókn. Þess vegna verður ekkert af okkar framlagi að þessu sinni. Þetta er endanleg ákvörðun.“
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við RÚV að misskilnings gæti í málflutningi Kára. Stofnunin og Vísindasiðanefnd hefðu verið tilbúin til að veita málinu flýtimeðferð of taka erindi Íslenskrar erfðagreiningar fyrir strax á þriðjudag. Að fengnum tilskildum gögnum hefði þá verið hægt að afgreiða erindið sama dag. Helga segir að Kári hafi verið upplýstur um þetta í gær.
„Lýsingin á verkefninu gaf til kynna að það væri tvíþætt og fæli annars vegar í sér heilbrigðisþjónustu, sem ekki kallar á aðkomu persónuverndar, og hins vegar kynni að vera um að ræða vísindarannsókn á heilbrigðissviði, sem væri þá háð leyfi Vísindasiðanefndar,“ segir Helga við RÚV. Um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði gildi ákveðin lög og því hafi verið kallað eftir nánari skýringum til að greiða fyrir framgangi málsins.
Í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Íslenskrar erfðagreiningar sem sett var inn í gærkvöldi segir að fyrirtækið ætlaði aldrei að setja sýni sem hefði verið aflað vegna COViD 19 í lífssýnabanka fyrirtækisins enda hefði það ekki verið í samræmi við lög. „Einungis var boðin fram klínísk aðstoð við að taka og greina sýni úr fólki sem er með einkenni sem gætu bent til veirusýkingar. Raðgreining á sýnunum átti að leiða í ljós hvort þau væru að stökkbreytast. Íslensk erfðagreining greinir nú þegar um eittþúsund sýni á ári frá Landspítalanum þar sem grunur leikur á sjaldgæfum erfðasjúkdómum eða veikindi eru af óþekktum orsökum. Sú samvinna hefur ekki verið leyfisskyld.“