Kærunefnd útlendingamála hefur hafnað beiðni um endurupptöku á máli systkinanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og foreldra þeirra frá Írak. Frá þessu greindi Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
Brottvísun fjölskyldunnar var frestað í síðustu viku en hún hefur vakið mikil viðbrögð hjá Íslendingum. Tugir mættu í mótmælagöngu í gær á vegum No Borders, Solaris og Réttar barna á flótta en gangan var „í samstöðu með fólki á flótta, gegn fasisma ríkis og einstaklinga.“
Sema Erla segir að fjölskyldan muni fara í beinu einkaflugi í boði íslenskra yfirvalda til Grikklands á miðvikudag eða fimmtudag. „Við erum að fara að senda fjögur flóttabörn, á aldrinum eins til níu ára, í mjög viðkvæmri stöðu, á götuna í Grikklandi þar sem ríkir neyðarástand og nýnasistar munu taka á móti þeim með ofbeldi, svívirðingum og niðurlægjandi og ómannúðlegri meðferð,“ skrifar hún.
Hræðilegt ástand við Miðjarðarhaf
Rauði krossinn á Íslandi mótmælti í síðustu viku fyrirhuguðum brottvísunum barnafjölskyldna til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd. Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands en nú hafi að minnsta kosti fimm fjölskyldur fengið tilkynningu um að íslensk stjórnvöld muni flytja þau til Grikklands á næstu dögum og vikum.
„Á sama tíma berast fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhaf, t.a.m. drukknun ungs drengs þegar hann og fjölskylda hans fóru yfir hafið frá Tyrklandi á ótryggum bát. Þá er afar viðkvæmt ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands þar sem fréttir herma að um 13.000 flóttamenn bíði inngöngu. Þá berast einnig fregnir af harðræði grísku lögreglunnar og öðrum yfirvöldum og að fólki sé meinað inngöngu. Mikil ólga og andúð fólks í Grikklandi á flóttafólki er einnig áberandi í fjölmiðlum sem ætla má að fari aðeins vaxandi,“ segir í tilkynningu Rauða krossins.
Útlendingastofnun stendur við bak þessara ákvarðana með góðri samvisku
Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, sagði í samtali við RÚV í síðustu viku að ástandið í Grikklandi, og sérstaklega við landamæri Tyrklands, væri grafalvarlegt. Útlendingastofnun félli hins vegar ekki frá brottvísunum þar sem þær stæðust útlendingalög og fjölskyldurnar væru þegar með alþjóðlega vernd í Grikklandi.
„Eini hópurinn sem við skoðum að senda til baka til Grikklands eru einstaklingar sem hafa fengið þar jákvæða niðurstöðu, alþjóðlega vernd,“ sagði Þorsteinn.
Aðspurður hvort ástandið í Grikklandi, sérstaklega eins og það hefur verið síðustu viku, væri nægilega gott til að Íslendingar gætu með góðri samvisku vísað barnafjölskyldum þangað sagði hann svo vera.
„Samkvæmt lögum um útlendinga þá er okkur ekki heimilt að senda neinn til baka sem gæti átt hættu á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Meðan við förum eftir því, já, þá getum við staðið við bak þessara ákvarðana með góðri samvisku,“ sagði Þorsteinn við RÚV.
Segir Íslendinga skrá sig á spjöld sögunnar
Sema Erla segir í færslu sinni að Íslendingar séu að fara að senda börn sem annað hvort hafa verið um árabil á flótta eða eru fædd á flótta – aftur á flótta um ókomna tíð. „Við erum að fara að skrá okkur á spjöld sögunnar fyrir að vera ríkið sem sendir flóttabörn í eymd, vonleysi, ótta og óöryggi í Grikklandi á sama tíma og önnur ríki eru að opna faðminn og bjóða flóttabörnum frá Grikklandi að koma í skjól og öryggi til sín.“
Þá séu Íslendingar að fara að senda börnin í skelfilegar aðstæður sem „við myndum aldrei sætta okkur við fyrir okkur sjálf eða börnin okkar. Þessi forkastanlega aðgerð verður framkvæmd í andstöðu við skýran vilja þess samfélags sem yfirvöld eru í forsvari fyrir. Skömm ykkar er mikil. Við munum ekki fyrirgefa. Við munum aldrei gleyma. Sagan mun dæma ykkur hart,“ skrifar hún að lokum.
Kærunefnd útlendingamála hefur hafnað beiðni um endurupptöku á máli systkinanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og ungra...
Posted by Sema Erla Serdar on Monday, March 9, 2020