Talsmenn Eflingar hafa lýst samningi sínum við Reykjavíkurborg sem „sögulegum sigri“ í verkalýðsbaráttu hérlendis. Það sem fram hefur komið fram um efni samningsins er þó nokkuð frá þeim ýtrustu kröfum sem Efling setti fram opinberlega í viðræðuferlinu.
Samt er ánægjan í röðum forystu Eflingar mikil. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður stéttarfélagsins segir við Kjarnann að efnislegu kjarabæturnar sem félagsmenn fái með samningnum við Reykjavíkurborg séu raunverulegar, en sigur Eflingar snúi ekki síður að auknum „sýnileika og plássi“ sem láglaunakonur hafi fengið í opinberri umræðu síðustu vikur.
„Það var mjög, mjög, mjög lengi vel ekki boðið upp á neitt sem ég myndi kalla samningsviðræður. Ekki aðeins náum við að brjótast í gegnum þann múr og heyja þessa baráttu á okkar eigin forsendum og með þennan kraft og sjálfsvirðingu sem býr í þessum dýrmæta hópi, sem borgin hefði náttúrlega sjálf átt að mæta við samningsborðið með góða og heildstæða lausn,“ segir Sólveig, auðheyrilega sátt.
Varðandi krónur og aura fór Efling fram á sérstaka „leiðréttingu“ kjara lægst launuðu hópanna sem starfa fyrir borgina. Slík leiðrétting fékkst, en hún verður þó að hámarki rúmar 22 þúsund krónur umfram þær 90 þúsund króna almennu hækkanir sem borgin bauð í takt við lífskjarasamninginn. Tæpar átta þúsund krónur fara til allra, vegna breytinga á launatöflum, og svo bætast við leiðréttingar sem hæstar eru 15 þúsund krónur og trappast svo niður upp launastigann. Lægstu launin hækka því um 112 þúsund krónur á samningstímanum.
Í kröfugerð sinni fór Efling fram á að þessi sérstaka leiðrétting yrði mest 52 þúsund krónur ofan á lægstu launin, en síðan stiglækkandi upp launatöfluna. Þessa kröfu verðmat Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, á 1,2 milljarða króna fyrir borgina í grein sem birtist á Kjarnanum í byrjun febrúar, en ljóst er að leiðréttingin sem samdist um á endanum kostar Reykjavíkurborg eitthvað minna, sé miðað við þær sömu forsendur og Stefán notast við.
Kostnaðarmat samninganna í takt við væntingar borgarinnar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir við Kjarnann að hann geti ekki svarað því nákvæmlega hvað sú leiðrétting sem Efling náði fram kosti borgina sem slík, slíkt mat fari ávallt eftir þeim forsendum sem stuðst sé við og margir aðrir þættir komi inn í kostnaðarmat samninganna, stytting vinnuvikunnar, lenging orlofs og fleiri.
Þá hafi fjölmörg þeirra stöðugilda sem samningarnir ná utan um átt að koma til starfsmats síðar á þessu ári og þeirri vinnu hafi í reynd verið flýtt, sem þýði að hluti þess kostnaðar borgin ber vegna hinnar svokölluðu leiðréttingar hafi verið viðbúinn.
„Við teljum í raun kostnaðarmatið af samningunum, plús starfsmatinu, vera nálægt því sem við miðuðum við í okkar tilboði, sem hefur legið fyrir um nokkurt skeið,“ segir Dagur.
Deila enn ekki sömu sýn á það hvað fólst í tilboði borgarinnar
Sólveig segist ánægð með árangurinn. Hún telur mikið hafa áunnist eftir því sem á leið á samningaferlið og bætir við að fyrsta boð borgarinnar í viðræðunum hafi verið verra en lífskjarasamningurinn. Þá hafi einnig mikið gerst frá því að borgarstjóri setti fram hið svokallaða „Kastljóstilboð“, en það hafi ekki verið það sem skrifað var undir, þrátt fyrir að borgarstjóri hafi að hennar mati tjáð sig með þeim hætti í fjölmiðlum í dag.
„Það er bara aldeilis ekki rétt, veruleikinn í samningaherberginu eftir að hann fór fram með þetta margumrædda Kastljóstilboð var sá að þá var verið að bjóða okkur leiðréttingu fyrir um það bil fimm starfsheiti, en þegar við skrifum undir í nótt erum við að fá leiðréttingu fyrir um það bil tuttugu og sex starfsheiti. Það er nú aldeilis töluvert mikill árangur myndi ég segja,” segir Sólveig Anna.
„Við höfum ekki sömu sýn á það,“ segir Dagur, spurður út í orð Sólveigar um að tilboð borgarinnar hafi hljómað öðruvísi í Kastljósinu en það sem lagt var fram við samningaborðið. Hann leggur áherslu á að hann sé ánægður með að allir séu ánægðir með það sem á endanum samdist um.
„Við lítum svo á að samningurinn hafi verið gerður á grundvelli tilboðs borgarinnar, lífskjarasamningsins og styttingu vinnuvikunnar. Það er auðvitað besta niðurstaðan ef allir eru sáttir við útkomuna,“ segir borgarstjóri.
Kórónuveiran í hugum fólks í Karphúsinu
Hann segist persónulega ánægður með að þessari deilu sé lokið. „Það eru ekki síst fjölskyldur með börn á leikskólaaldri sem hafa fundið mjög yfir þessu, sérstaklega eftir að fór að líða á verkfallið, og eru því fegnust að komast í rútínuna,“ segir Dagur.
Borgarstjóri bætir við að nú taki við stórt verkefni, að búa samfélagið undir að takast á við útbreiðslu kórónuveirunnar, sem þegar sé byrjuð að reyna á velferðarsvið borgarinnar. Þá stöðu segir hann hafa haft áhrif á gang viðræðna hjá öllum þeim hópum sem voru hjá ríkissáttasemjara um helgina.
„Mér fannst í raun allir samningsaðilar, líka BSRB og ríkið, átta sig á því samhengi og að það þyrfti að nota tímann mjög vel til að ljúka málum og við getum verið mjög ánægð með það öll að það tókst,” segir Dagur.