Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað meginvexti hans, oft kallaðir stýrivextir, úr 2,75 prósent í 2,25 prósent. Vaxtalækkunin var viðbúin enda tilkynnti peningastefnunefndin í gær að vaxtaákvörðunardegi hefði verið flýtt um viku, en samkvæmt áætlun átti hann að vera 18. mars. Ólíklegt var talið að sú breyting hefði verið gerð nema að til stæði að lækka vextina.
Ástæðan er þau efnahagslegu áhrif sem fyrirsjáanlega verða á íslenskt efnahagslíf vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Í tilkynningu frá peningastefnunefdninni kemur fram að hún hafi jafnframt ákveðið að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr einu prósenti niður í núll prósent. Föst bindiskylda verður áfram eitt prósent. Þar segir að nefndin muni „áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn“.
Vextir voru síðast lækkaðir í febrúar, og þá um 0,25 prósentustig. Alls hafa stýrivextir því lækkað um 2,25 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst. Það þýðir að vextir hafa helmingast á innan við einu ári.
Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að ríkisstjórnin kynnti alls sjö aðgerðir sem hún ætlar að grípa til vegna fyrirliggjandi aðstæðna í efnahagslífinu. Á meðal þeirra er að fella niður gistináttarskatt á þau fyrirtæki sem greiða slíkan. Þá hafa bankar landsins kynnt Seðlabanka Íslands ýmsar tillögur sem þeir vilja að gripið verði til vegna aðstæðna.
Þegar vextir voru lækkaði í febrúar sagði Seðlabankinn að það væri vegna þess að vísbendingar væru um að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur meiri en áður var talið en að horfur fyrir þetta og næsta ár hefðu versnað samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála. Þar var gert ráð fyrir að hagvöxtur verði einungis 0,8 prósent í ár en í nóvemberspá bankans var búist við 1,6 prósent vexti. Lakari horfur megi fyrst og fremst rekja til erfiðari stöðu útflutningsatvinnugreina og versnandi fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.
Nú er ljóst að sú spá verður líkast til tekin frekar niður.