Bandaríkjamenn greiddu með kortum sínum í mars og í apríl í fyrra 5,8 og 4,4 milljarða til innlendra fyrirtækja, að flugsamgöngum undanskildum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar í dag. Þá segir að tilkynning Bandaríkjaforseta um að loka á ferðalög frá Evrópu í 30 daga hafi komið mörgum í opna skjöldu. Bandaríkjamenn séu mikilvægasta markaðssvæði ferðaþjónustu á Íslandi og ljóst að áhrifin verði tilfinnanleg.
Enn fremur kemur fram að Bandaríkjamönnum hafi fækkað nokkuð undanfarin misseri og tekjur af þeim lækkað samhliða því. Hluti tekna í ferðaþjónustu komi með öðrum leiðum en greiðslukortum, en hlutfall greiðslukorta sé í kringum 50 prósent.
„Ef gert er ráð fyrir sömu þróun tekna af bandarískum ferðamönnum og áðurnefndu hlutfalli má ætla að íslensk ferðaþjónusta verði af 7 til 8 milljörðum með beinum hætti vegna þeirra sem hefðu komið þann mánuð sem verður lokað. Má þó gera ráð fyrir því að áhrifin verði meiri enda má áætla að aðrar flugáætlanir muni riðlast vegna ferðabannsins. Þá má líta svo á að aðgerðir stjórnvalda vestanhafs séu ekki til hvatningar fyrir þarlenda ferðamenn til ferðalaga til Evrópu næstu mánuði,“ segir í tilkynningunni.
Kortavelta Kínverja dregst gífurlega saman
Jafnframt kemur fram hjá Rannsóknasetrinu að erlend greiðslukortavelta án flugsamgangna hafi dregist saman um 8,5 prósent í febrúar á þessu ári og numið 14,1 milljarði í mánuðinum samanborið við 15,4 milljarða í febrúar í fyrra.
Kortavelta erlendra ferðamanna til þjónustuflokka á netinu dróst saman um 4,4 prósent á milli ára í febrúar, samkvæmt tilkynningunni. Netgreiðslur ferðamanna séu að stórum hluta til greiðslur fyrir ferðir sem fara á síðar og gefi því vísbendingu um hug ferðamanna til Íslandsferðar.
Miðað við þessa hóflegu lækkun megi segja að áhrif vegna COVID-19 hafi ekki verið komin fram af neinum þunga í febrúar og verði „áhugavert að skoða þróunina í framhaldinu.“ Sé litið til sama mælikvarða, það er kortaveltu þjónustuflokka á netinu, fyrir Kínverja eingöngu þá hafi veltan dregist saman um 62 prósent, enda veiran fyrr á ferð í Kína en annars staðar.
Þá kemur fram að í stærstu flokkum greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna, hótelgistingu, ýmis ferðaþjónusta og verslun hafi verið töluverður samdráttur milli ára. Mestu muni um samdrátt í tveimur fyrrnefndu flokkunum. Gistiþjónusta hafi dregist saman um 10 prósent á milli ára og numið 3,2 milljörðum króna í mánuðinum, í krónum talið hafi lækkunin numið tæpum 389 milljónum króna. Í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem inniheldur skipulagðar ferðir, hafi veltan numið 2,9 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra hafi veltan numið 3,2 milljörðum og dregist hlutfallslega saman um 11 prósent á milli ára í febrúar.
Verslun erlendra ferðamanna með greiðslukortum dróst saman um 5 prósent samanborið við fyrra ár og nam 2 milljörðum í febrúar, segir í tilkynningu Rannsóknasetursins. Dróst verslun saman í öllum undirflokkum verslunar nema í verslun með gjafa- og minjagripi sem jókst um 6 prósent á milli ára. Dagvöruverslun minnkaði um 3 prósent miðað við sama tíma í fyrra og nam 624 milljónum króna. Velta í fataverslun nam 313 milljónum króna og dróst saman um 16 prósent á milli ára í febrúar.