EPA

Ferðabann Bandaríkjaforseta mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland

Flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland koma frá Bandaríkjunum. Í fyrra skiluðu þeir yfir tvö hundruð milljörðum krónum í tekjum inn í íslenskt atvinnulíf. Ferðabannið sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti í nótt mun hafa verulega áhrif á þau fyrirtæki á Íslandi sem treysta á þær tekjur.

Ákvörðun Don­ald Trump, for­seta Banda­ríkj­anna, um að setja á ferða­bann milli Banda­ríkj­anna og þeirra ríkja Evr­ópu sem til­heyra Schen­gen-­svæð­inu, til að hindra útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómn­um, mun hafa miklar efna­hags­legar afleið­ingar fyrir Ísland. Und­an­farin ár hafa flestir þeirra sem heim­sækja Ísland sem ferða­menn komið frá Banda­ríkj­un­um. Í fyrra komu þaðan 464 þús­und manns, sem var þriðj­ungi færri en metárið 2018.

Ástæðan fyrir þeirri miklu fækkun milli ára var að uppi­stöðu gjald­þrot WOW air í mars­lok 2019, en flug­fé­lagið flaug á nokkra áfanga­­staði í Norð­­ur­-Am­er­ík­­u. 

Ferða­bann­ið, sem á að standa yfir í 30 daga frá og með kom­andi föstu­degi, mun virka þannig að öllum íbúum landa sem til­heyra Schen­gen-­svæð­inu, þar á meðal Ísland og þorri Evr­ópu, verður meinað að koma til Banda­ríkj­anna á tíma­bil­inu. Banda­rískir rík­is­borg­arar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Banda­ríkj­unum munu fá að ferð­ast ef þeir vilja en sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu sem birt var í nótt á vef heima­varn­ar­ráðu­neyt­is­ins mun þeim banda­rísku far­þegum sem dvalið hafa á Schen­gen-­svæð­inu hleypt inn í landið í gegnum valda flug­velli þar sem sér­stakar ráð­staf­anir verða gerðar til að skima fyrir smiti.

Allar líkur eru því til þess að flug milli Banda­ríkj­anna og landa sem til­heyra Evr­ópska efna­hags­svæð­inu muni að mestu liggja niðri á meðan að bannið stendur yfir, enda ólík­legt að flug­fé­lög muni fljúga mikið þegar þorri Evr­ópu má ekki koma til Banda­ríkj­anna, og Banda­ríkja­menn hafa verið hvattir til að fara helst ekki til Evr­ópu. 

Hund­ruð millj­arða tekjur í húfi

Sú stað­reynd, að Banda­ríkja­menn séu allra þjóða lík­leg­astir til að heim­sækja Ísland heim, gera Banda­ríkin að stærsta ein­staka við­skipta­land Íslands í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem í felst aðal­lega sala á ferða­þjón­ustu. Á árinu 2018, þegar sá þjón­ustu­út­flutn­ingur náði hámarki, var hann 32 pró­sent af öllum heild­ar­út­flutn­ingi Íslands á þjón­ustu. Sam­kvæmt bráða­birgð­ar­tölum Hag­stofu Íslands fyrir síð­asta ár var hann 29,2 pró­sent það árið. Alls var um að ræða 202 millj­arða króna í þjón­ustu­tekjum sem koma frá þessu eina land­i. 

Þjón­ustu­jöfn­uður Íslands, mun­ur­inn á útfluttri og inn­fluttri þjón­ustu, var jákvæður um 239 millj­arða króna í fyrra sam­kvæmt bráða­birgða­töl­um. Heild­ar­tekjur íslenska þjóð­ar­bús­ins af þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem aftur er að lang­mestu leyti ferða­þjón­ustu­tengd­ur, voru 692 millj­arðar króna í fyrra. Þessar tekjur eru nú ekki að koma inn í landið að stóru leyti ekki að koma inn í landið og algjör óvissa ríkir um hvernig háanna­tím­inn í ferða­þjón­ustu, sem er sum­ar­tím­inn, muni koma út þótt að við­búið sé að sam­dráttur upp á tugi pró­senta muni eiga sér stað.

Kynntar aðgerðir mið­uðu við annan veru­leika

Rík­is­stjórnin kynnti á þriðju­dag aðgerðir í sjö liðum til að mæta þeirri efna­hags­legu stöðu sem upp er kom­in. Í þeim pakka voru meðal ann­ars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynnt­ar, eins og til­færsla á inn­stæðum Íbúða­lána­sjóðs úr Seðla­banka Íslands og yfir til við­skipta­banka til að auka laust fé innan þeirra.

Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjár­fest­ingar hins opin­bera og engar nýjar slíkar til­greindar á blaða­manna­fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þar var hins vegar greint frá því að fyr­ir­tækjum sem lenda í tíma­bundnum rekstr­­ar­örð­ug­­leik­um ­vegna tekju­­falls verði veitt svig­­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að g­istin­átta­skatt­ur verði felldur nið­ur. Hann hefur skilað rúm­lega einum millj­arði króna í tekjum á und­an­förnum árum en fyrir liggur að g­istin­átta­skatt­ur­inn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir rík­is­sjóð ef ferða­menn eru ekki að koma til lands­ins. 

Þá greindi rík­is­stjórnin frá því að hún ætl­aði í mark­aðsá­tak erlendis „þeg­ar að­­stæður skap­­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­­an­lands.“

Virkt sam­tal um hvernig bankar eigi að taka á stöðu fyr­ir­tækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstr­ar­greiðsl­ur, eins og launa­greiðsl­ur, hefur verið í gangi en engin nið­ur­staða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „líf­væn­legum fyr­ir­tækj­um“ í gegnum þann kúf sem framund­an er. 

Seðla­banki Íslands lækk­aði í gær vexti um 0,5 pró­sentu­stig niður í 2,25 pró­sent, lægstu vexti sem hann hefur nokkru sinni boðið upp á. Sömu­leiðis afnam hann með­al­tals bindi­skyldu banka sem losar um nokkra tugi millj­arða króna fyrir íslenska banka til að lána út.

Mikil áhrif á Icelandair

Ferða­bann Trump mun hins veg­ar, að öllum lík­ind­um, kalla á frek­ari aðgerð­ir. Áhrifin á íslenska ferða­þjón­ustu verða mikil og þau munu smit­ast víðar út í atvinnu­líf­ið. 

Icelanda­ir ­sér til að mynda fram á að fjöldi þeirra sem fljúga með vélum fyr­ir­tæk­is­ins mun hríð­falla, enda Banda­ríkin stærsti mark­aður þess. Þar að auki sér­ Icelanda­ir um 75 pró­sent af öllum frakt­flutn­ingum á vörum frá Íslandi til Norð­ur­-Am­er­íku, sam­kvæmt tölum frá banda­rískum flug­mála­yf­ir­völd­um. 

Ísland er í ágætis stöðu til að takast á við erf­ið­leika eins og stend­ur. Gjald­eyr­is­vara­forði Seðla­banka Íslands var 822 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót og skuldir rík­is­sjóðs hafa lækkað niður í 22 pró­sent af lands­fram­leiðslu á örfáum árum.  

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar