Ferðabann Bandaríkjaforseta mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland
Flestir ferðamenn sem heimsækja Ísland koma frá Bandaríkjunum. Í fyrra skiluðu þeir yfir tvö hundruð milljörðum krónum í tekjum inn í íslenskt atvinnulíf. Ferðabannið sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti í nótt mun hafa verulega áhrif á þau fyrirtæki á Íslandi sem treysta á þær tekjur.
Ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að setja á ferðabann milli Bandaríkjanna og þeirra ríkja Evrópu sem tilheyra Schengen-svæðinu, til að hindra útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland. Undanfarin ár hafa flestir þeirra sem heimsækja Ísland sem ferðamenn komið frá Bandaríkjunum. Í fyrra komu þaðan 464 þúsund manns, sem var þriðjungi færri en metárið 2018.
Ástæðan fyrir þeirri miklu fækkun milli ára var að uppistöðu gjaldþrot WOW air í marslok 2019, en flugfélagið flaug á nokkra áfangastaði í Norður-Ameríku.
Ferðabannið, sem á að standa yfir í 30 daga frá og með komandi föstudegi, mun virka þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í nótt á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.
Allar líkur eru því til þess að flug milli Bandaríkjanna og landa sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu muni að mestu liggja niðri á meðan að bannið stendur yfir, enda ólíklegt að flugfélög muni fljúga mikið þegar þorri Evrópu má ekki koma til Bandaríkjanna, og Bandaríkjamenn hafa verið hvattir til að fara helst ekki til Evrópu.
Hundruð milljarða tekjur í húfi
Sú staðreynd, að Bandaríkjamenn séu allra þjóða líklegastir til að heimsækja Ísland heim, gera Bandaríkin að stærsta einstaka viðskiptaland Íslands í þjónustuútflutningi, sem í felst aðallega sala á ferðaþjónustu. Á árinu 2018, þegar sá þjónustuútflutningur náði hámarki, var hann 32 prósent af öllum heildarútflutningi Íslands á þjónustu. Samkvæmt bráðabirgðartölum Hagstofu Íslands fyrir síðasta ár var hann 29,2 prósent það árið. Alls var um að ræða 202 milljarða króna í þjónustutekjum sem koma frá þessu eina landi.
Þjónustujöfnuður Íslands, munurinn á útfluttri og innfluttri þjónustu, var jákvæður um 239 milljarða króna í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum. Heildartekjur íslenska þjóðarbúsins af þjónustuútflutningi, sem aftur er að langmestu leyti ferðaþjónustutengdur, voru 692 milljarðar króna í fyrra. Þessar tekjur eru nú ekki að koma inn í landið að stóru leyti ekki að koma inn í landið og algjör óvissa ríkir um hvernig háannatíminn í ferðaþjónustu, sem er sumartíminn, muni koma út þótt að viðbúið sé að samdráttur upp á tugi prósenta muni eiga sér stað.
Kynntar aðgerðir miðuðu við annan veruleika
Ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag aðgerðir í sjö liðum til að mæta þeirri efnahagslegu stöðu sem upp er komin. Í þeim pakka voru meðal annars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra.
Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar greint frá því að fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum og að gistináttaskattur verði felldur niður. Hann hefur skilað rúmlega einum milljarði króna í tekjum á undanförnum árum en fyrir liggur að gistináttaskatturinn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir ríkissjóð ef ferðamenn eru ekki að koma til landsins.
Þá greindi ríkisstjórnin frá því að hún ætlaði í markaðsátak erlendis „þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.“
Virkt samtal um hvernig bankar eigi að taka á stöðu fyrirtækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur, hefur verið í gangi en engin niðurstaða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan er.
Seðlabanki Íslands lækkaði í gær vexti um 0,5 prósentustig niður í 2,25 prósent, lægstu vexti sem hann hefur nokkru sinni boðið upp á. Sömuleiðis afnam hann meðaltals bindiskyldu banka sem losar um nokkra tugi milljarða króna fyrir íslenska banka til að lána út.
Mikil áhrif á Icelandair
Ferðabann Trump mun hins vegar, að öllum líkindum, kalla á frekari aðgerðir. Áhrifin á íslenska ferðaþjónustu verða mikil og þau munu smitast víðar út í atvinnulífið.
Icelandair sér til að mynda fram á að fjöldi þeirra sem fljúga með vélum fyrirtækisins mun hríðfalla, enda Bandaríkin stærsti markaður þess. Þar að auki sér Icelandair um 75 prósent af öllum fraktflutningum á vörum frá Íslandi til Norður-Ameríku, samkvæmt tölum frá bandarískum flugmálayfirvöldum.
Ísland er í ágætis stöðu til að takast á við erfiðleika eins og stendur. Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands var 822 milljarðar króna um síðustu áramót og skuldir ríkissjóðs hafa lækkað niður í 22 prósent af landsframleiðslu á örfáum árum.
Lestu meira:
-
24. febrúar 2021Dauðsföllum vegna COVID-19 fækkaði um 20 prósent milli vikna
-
24. febrúar 2021Finnst það „mikill dómgreindarbrestur“ hjá Áslaugu að hafa hringt í lögreglustjórann
-
24. febrúar 2021Búið að samþykkja 60 umsóknir um dvalarleyfi frá tekjuháu fjarvinnufólki
-
23. febrúar 2021Svona vill Þórólfur hafa umgengnina í ræktinni
-
23. febrúar 2021Allt að 50 manns mega koma saman – 200 áhorfendur á kappleikjum
-
23. febrúar 2021Fullbólusettir: 10.554
-
22. febrúar 2021Þýðir ekki að við getum lifað „hinu villta góða lífi“
-
22. febrúar 2021Pfizer-rannsókn hefði skilað þekkingu „einmitt af því að við erum nánast veirufrí“
-
20. febrúar 2021„Það er ekki þannig að heimurinn verði alveg eins“
-
19. febrúar 2021Bólusetningu þjóðarinnar gæti verið lokið í júní, segir heilbrigðisráðuneytið