Engir veitingastaðir og fáar búðir fyrir utan matvöruverslanir og apótek verða opnar næstu dagana á Ítalíu. Öllum skólum í Danmörku verður lokað frá og með næsta föstudegi og opinberir starfsmenn eiga ekki að mæta á vinnustaði sína nema að brýna nauðsyn beri til. Í báðum löndunum verða fjöldasamkomur bannaðar. Barir og skemmtistaðir eru hvattir til að skella tímabundið í lás.
Stjórnvöld í Danmörku og á Ítalíu hafa tilkynnt enn hertari varúðarráðstafanir vegna nýju kórónuveirunnar sem breiðst hefur mjög hratt út í báðum löndunum. Smitum í Danmörku fjölgaði tífalt frá mánudegi til miðvikudags. Þau voru orðin 514 talsins í gærkvöldi.
Á Ítalíu er ástandið enn að versna. Smitum fjölgaði um 2.313 í gær og hefur veiran greinst hjá 12.462 manns frá því að faraldurinn braust út. Ekki hafa áður jafnmörg tilfelli greinst þar á einum degi og þó höfðu í gær ekki borist nýjar tölur frá héraði í norðurhluta landsins sem orðið hefur hvað verst úti.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, segir að barir, veitingastaðir, hárgreiðslustofur og önnur fyrirtæki sem ekki veita brýna þjónustu skuli loka til 25. mars. Heimsendingarþjónusta verður þó heimil. Þegar var búið að loka skólum, söfnum, kvikmyndahúsum, líkamsræktarstöðvum, íþróttaleikvöngum og öðrum samkomustöðum.
Lýsa yfir heimsfaraldri
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir í gærkvöldi að COVID-19 væri heimsfaraldur. Það þýðir að sjúkdómurinn er talinn eiga eftir að breiðast út um allan heim. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, sagði að þrettánföld aukning hefði orðið á tilfellum utan Kína á tveimur vikum. Hann sagðist hafa miklar áhyggjur af því hversu hratt veiran væri að breiðast út einnig því að viðbrögð við faraldrinum væru að láta á sér standa víða. Veiran hefði nú greinst í 114 löndum og tæplega 4.300 hefðu látist úr sjúkdómnum sem hún veldur.
„Þúsundir til viðbótar eru að berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsum,“ sagði Tedros á upplýsingafundi í Genf í gærkvöldi. „Á komandi dögum og vikum þá eigum við von á enn fleiri tilfellum og að dauðsföllum og löndum sem veiran greinist í eigi eftir að fjölga.“
Yfirmaður neyðaraðstoðar hjá Alþjóða heilbrigðismálstofnuninni, Michael Ryan, greindi frá því í gær að um 900 manns væru á gjörgæsludeildum sjúkrahúsa á Ítalíu vegna COVID-19. „Íran og Ítalía glíma við mestan vanda núna en ég get fullvissað ykkur um að önnur lönd verða í þeirri stöðu mjög fljótlega.“
Kaupa geymsluþolin matvæli
Strax og danski forsætisráðherrann hafði tilkynnt um hert viðbrögð vegna veirunnar þyrptist fólk í matvöruverslanir að hamstra matvæli. Engin þörf er á slíku og fjöldi verslunarkeðja sendi sameiginlega út fréttatilkynningu um að engar vísbendingar væru um að skortur yrði á neysluvörum á næstunni. Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að fólk sé m.a. að kaupa niðursuðuvörur, núðlur og fleiri geymsluþolnar vörur. Hillur í sumum verslunum tæmdust því fljótt af til dæmis brauði.
Samkvæmt áætlunum danskra stjórnvalda verða innanhússsamkomur fleiri en 100 manna bannaðar. Lagabreytingu þarf til að koma slíku banni á og þar til það verður afgreitt með flýti á þinginu eru þeir sem reka samkomustaði beðnir að fylgja þessum fyrirmælum.
Einkafyrirtæki eru beðin að hvetja starfsmenn sína til að vinna að heiman ef því verður við komið og opinberir starfsmenn skulu halda sig frá vinnustöðum sínum nema að þeir þurfi nauðsynlega, starfs síns vegna, að mæta. Heimsóknir á öldrunar- og hjúkrunarheimili eru bannaðar, öllum skólum verður lokað og fólk hvatt til að dreifa álagi á almenningssamgöngur.
Stjórnvöld ætla líka að fá heimild með lögum til að geta þvingað einkafyrirtæki, m.a. þau sem reka leikskóla og heilbrigðisþjónustu, til að skerða starfsemi eða loka, ef þörf krefur.
Góðar fréttir bárust hins vegar frá Kína í gær. Í borginni Wuhan greindust aðeins fjórtán ný smit og virðist því sem faraldurinn sé þar í rénun.