„Þetta er mikið reiðarslag og það dregur líka fram í mínum huga mikla veikleika í alþjóðlegu samstarfi að svona hlutir geti gerst með einhliða ákvörðunum án fyrirvara,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Bítínu á Bylgjunni á morgun, þar sem ferðabann Bandaríkjastjórnar var til umræðu.
Bjarni sagði að þrátt fyrir að efnahagslegar afleiðingar ferðabannsins gætu orðið miklar, mætti ekki gleymast að ógnin væri önnur en einungis efnahagsleg. Útbreiðsla kórónuveirunnar og viðbrögð við henni þyrftu að vera í fyrsta sæti hjá þjóðinni.
„Við megum ekki gleyma því að vírusinn og afleiðingar hans verða að vera í forgrunni hjá okkur, að hefta útbreiðsluna, að hlífa þeim sem eru í veikri stöðu með undirliggjandi sjúkdóma, að lágmarka álag á heilbrigðiskerfið, halda áfram að standa saman um ábyrga skynsamlega hegðun, þetta er í fyrsta sæti hjá okkur til að hlífa hreinlega lífum hérna á Íslandi,“ sagði fjármálaráðherra.
„Síðan er það hin ógnin, þessi efnahagslega, sem kemur núna skyndilega í fangið á okkur. Ofan í það sem við áður höfðum áhyggjur af. Ég get ekki lýst þessu öðruvísi en sem gríðarlegu reiðarslagi fyrir þjóð sem byggir afkomu sína í sívaxandi mæli á komu ferðamanna til landsins og alveg ljóst að áhrifin sem við stöndum frammi fyrir eru langt umfram það sem við gátum ímyndað okkur fyrir tveimur vikum síðan, tíu dögum, jafnvel á mánudaginn,“ sagði Bjarni og bætti við að gott væri að stjórnkerfið hefði þegar verið virkjað til þess að bregðast við.
Sagði að stutt yrði við Icelandair
Bjarni sagði að fyrirsjáanlegt væri að mörg störf myndu tapast og ljóst væri að gríðarleg áföll væru framundan í ferðaþjónustunni, en ríkið ætlaði að reyna að milda það högg. Hann var spurður sértækt hvort til greina kæmi að hjálpa Icelandair fjárhagslega og sagði Bjarni að allt yrði gert sem „raunhæft“ væri til að hjálpa flugfélaginu á þessum erfiðu tímum. Þó væri ekki tímabært að ræða með nákvæmlega hvaða hætti það mögulega yrði.
„Við erum komin í samtal við fjármálakerfið vegna þess að það mun þurfa mikla lausafjárfyrirgreiðslu til fyrirtækja sem lenda í tímabundnum vanda. Það sem við erum að horfa til er að fleyta þeim í gegnum erfiða tímann svo lágmarka megi áhrif niðursveiflunnar og þá erum við auðvitað að tala um að bjarga sem flestum störfum og valda sem minnstri röskun hjá heimilunum, þó við verðum að horfast í augu við að það er ekki hægt að fyrirbyggja slíkt, það munu verða gríðarleg áföll í ferðaþjónustunni með fækkun starfa,“ sagði fjármálaráðherra almennt um aðgerðir stjórnvalda.
„Á hinum endanum erum við þá að bregðast við því með því að styrkja stuðningskerfin okkar og smíða leiðir til þess að þeir sem lenda í slíkum áföllum fái stuðning hjá okkur hinum, vegna þess að við ætlum að ná okkur aftur upp úr þessu,“ bætti hann við.
Fjármálaráðherra sagði að ríkið hefði sennilega aldrei verið í sterkari stöðu til þess að taka áfall í fangið. Ísland hefði til þess getuna vegna góðrar skuldastöðu ríkissjóðs.
Rök Bandaríkjastjórnar „ekki boðleg“
Bjarni skaut föstum skotum að Bandaríkjamönnum og sagðist hafa snöggreiðst er hann heyrði af ferðabanninu. Hann sagði reiðarslag að svona afdrifarík ákvörðun væri tekin án samráðs og gaf lítið fyrir rök Bandaríkjaforseta um að Evrópuríkin væru ekki að taka nægilega fast á útbreiðslu veirunnar.
„Það er ekki boðleg nálgun að segja að stjórnvöld hafi verið kærulaus í öðrum ríkjum. Veiran hefur komið upp í Bandaríkjunum, veiran varð ekki til í Evrópu,“ sagði fjármálaráðherra og bætti við þessar aðgerðir Bandaríkjastjórnar sýndu að þegar krísur steðjuðu að hugsaði hvert ríki fyrst og fremst um sína eigin hagsmuni.