Tveir einstaklingar með COVID-19 sjúkdóminn eru nú í einangrun á Landspítalanum. Í hádeginu í dag höfðu tæplega 1000 sýni verið rannsökuð og 109 hafa greinst með veiruna. Langflestir hinna smituðu voru að koma frá skíðasvæðum í Ölpunum en auk þess hafa bæst við tveir menn sem komu frá Bandaríkjunum. Innanlands smit eru orðin 24 og um 900 manns eru í sóttkví.
„Það er greinilegt að þessi veira er ennþá í vexti sérstaklega hjá einstaklingum sem eru að koma hingað inn til landsins,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna COVID-19 í dag. „Athyglisvert er að fólk er að veikjast og greinast núna, viku eftir að smit átti sér stað.“
Sagðist hann ekki alveg hafa átt von á nýjum tilfellum frá Bandaríkjunum en að það hafi þó ekki komið á óvart þar sem veiran er víða. Enn er verið að rekja ferðir fólksins eftir að það kom til landsins fyrir nokkrum dögum og setja fólk sem það var í samskiptum við í sóttkví.
Áfallaþolin þjóð
„Höldum ró okkar, það skiptir öllu máli að við séum yfirveguð og látum þá ekki slá okkur út af laginu,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. „Við erum áfallaþolin þjóð. Hættum ekki að vera til, höldum áfram að hittast og lifa lífinu.“
Enn verður haldið áfram sömu varúðaraðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar, þ.e. að einangra fólk sem er smitað og þá sem því tengist. Einnig eru samfélagslegar aðgerðir enn mikilvægar, þ.e. að fólk skuli gæta ítarlegs hreinlætis og taka upp ákveðnar sýkingarvarnir til að verja sig og aðra.
Sóttvarnalæknir brýndi fyrir fólki að miða áfram við að halda um tveggja metra fjarlægð frá öðru fólki, fara ekki á fjölmenn mannamót eða á staði þar sem veikindi gætu verið fyrir hendi. Sagði hann ánægjulegt að sjá hvað margir einstaklingar og fyrirtæki hafa tekið þessar ráðleggingar upp og beita ýmsum aðgerðum til að auka sóttvarnir.
Enn ekki tímabært að beita samkomubanni
Hvað samkomubann varðar sagði hann ekki enn tímabært að beita slíkum aðgerðum en að það myndi skýrast á næstu dögum. Samkomubann væri ein leið til viðbótar við þær aðgerðir sem þegar eru í gangi til að hefta smit. Mjög mismunandi væri hvernig til dæmis Norðurlöndin væru að nota slíkt. „Það er engin ein leið til.“
Til samkomubanns mun að sögn Víðis koma þegar að ekki verður lengur hægt að rekja smitin sem hér greinast. „Þessi tímapunktur fer kannski að koma,“ sagði Þórólfur. „Þetta er hins vegar viðkvæmt tæki og pólitískt tæki.“
Miðað við fræðin þá eru samfélagslegar aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja til að minnka smithættu þær sem skila mestum árangri. „Sá tími fer að koma [að sett verði á samkomubann] en við erum að sjá fleiri smit en ekki mikið af innlendum smitum. Við reynum að gera þetta af sanngirni ef að af því verður.“
Þórólfur sagði að nú færi að nálgast þann tímapunkt að velta fyrir sér hvort að til greina komi að setja alla sem koma til Íslands í sóttkví. Slíkt sé hins vegar mjög flókið í framkvæmd.
Spurður hvort til greina kæmi að loka skólum benti hann á að börn væru ekki miklir smitberar í þessum faraldri ólíkt því sem verður í hefðbundnum inflúensufaröldrum. Hvað aðgerðir sem grípa á til í Bandaríkjunum og víðar varðar sagðist Þórólfi sýnast sem svo að margir væru að grípa til handahófskenndra aðgerða og örþrifaráða en of seint.
Benti hann á að næsta skrefið í baráttunni gegn veirunni sé að beina sjónum að skaðaminnkandi aðgerðum, efla heilbrigðiskerfið ennfrekar og hjálpa veikum einstaklingum. „Við höldum enn að það sé mjög mikilvægt að hefta útbreiðslu sem mest með einangrunaraðgerðum sem er verið að beita.“
Hann sagðist neita því staðfastlega að hér á landi væri minna verið að gera í sóttvörnum vegna veirunnar en annars staðar. Hér væri verið að gera meira af því að rekja smit og setja fólk í sóttkví heldur en á öllum hinum Norðurlöndunum. Sagði hann þessa gagnrýni ekki sanngjarna gagnvart fjölda fólks sem vinnur myrkranna á milli við það að hefta útbreiðsluna.
Ekki dæma aðra
Alma Möller landlæknir hrósaði öllum þeim sem mest mæðir nú á vegna veirunnar. Hún sagði í samfélaginu hafi skapast umræða um að heilbrigðisstarfsmenn hefðu farið í skíðaferð eftir að veiran greindist hér. Benti hún á að öllum hafi verið frjálst að taka slíka ákvörðun, eingöngu hafi verið biðlað til fólks að sleppa ferðalögum. „Sjálfri dettur mér ekki í hug að dæma þá sem fóru,“ sagði Alma. „Það hefur mætt mikið á heilbrigðisstarfsfólki í vetur og margir orðnir þyrstir í frí.“
Þeir heilbrigðisstafsmenn sem fóru erlendis í frí hafi ekki getað séð fyrir hvað áhættusvæðin breyttust hratt. „Við skulum ekki dæma mál sem við höfum ekki forsendur fyrir heldur hafa yfirvegun og einbeitum okkur að deginum í dag og næstu dögum. Sýnum umburðarlyndi og stöndum saman.“
Um 180 hafa skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins, þar af 75 sjúkraliðar, tugir hjúkrunarfræðinga og þrjátíu læknar. Helmingur þessa fólks býðst til að sinna fólki með COVID-19. „Heilbrigðisstarfsfólk bregst ekki þegar á reynir.“
Um 128 þúsund manns um heim allan hafa greinst með veiruna. Yfir 4.700 hafa látist af völdum sýkingarinnar. Utan Kína hafa flestir greinst á Ítalíu og þar hafa tæplega 900 manns látist. Gríðarlegt álag er á heilbrigðiskerfi landsins og um 10% heilbrigðisstarfsmanna í norðurhéruðum landsins eru sýktir.